Eðlilegt líf?

Viðtal við sóttvarnalækni, sem birtist á vefnum ruv.is sl. miðvikudag, vekur áleitnar spurningar um hlutverk sóttvarnalæknis annars vegar og ríkisstjórnar hins vegar, nú þegar nágrannaþjóðir okkar hafa aflétt öllum sóttvarnatakmörkunum og allir þeir sem vilja og geta þegið bólusetningu við Covid-19 eru bólusettir hér á landi. Í viðtalinu kom fram sú skoðun sóttvarnalæknis að „RS-veira og inflúensa setji strik í reikninginn við afléttingar á sóttvarnatakmörkunum“.

Það blasir því við að enn á ný færist línan sem dregin var í sandinn í upphafi heimsfaraldurs Covid-19 og réttlætti víðtæk inngrip ríkisvaldsins í líf og frelsi fólks. Fyrst þurfti bara að fletja kúrvuna, svo þurfti að passa að heilbrigðiskerfið réði við alvarlegustu stöðuna í upphafi faraldurs, svo var það skyndilega veirufrítt Ísland, svo þurfti að efla heilbrigðiskerfið almennt og nú má enginn fá venjulega flensu eða vírus.

En hvenær mun sóttvarnalæknir komast að því að aflétta skuli öllum takmörkunum á líf fólks? Hvenær mun hann þora að segja það sem blasir við og nágrannalöndin hafa þegar horfst í augu við, að nú taki við eðlilegt líf þar sem engar eru takmarkanir á frelsi fólks til að gera hvaðeina. Þetta eðlilega líf felur nefnilega í sér hættur, veikindi og jafnvel dauðsföll. Við þurfum að læra að lifa með því aftur – sleppa hendinni af neyðarástandinu sem kom upp í mars 2020 og horfast í augu við breytt ástand og taka eðlilegu lífi fagnandi. Stærri spurningin er líka, hvenær mun ríkisstjórn Íslands taka aftur í taumana og þora að taka þær erfiðu ákvarðanir sem varða lífið hér á landi?

Það er ekki hlutverk ríkisvaldsins að koma í veg fyrir veikindi eða dauðsföll. Ríkisvaldið á að tryggja grunnþætti samfélagsins – að sameiginleg velferðarkerfi virki, lög og regla ríki í landinu og fólk geti án afskipta fundið lífi sínu þann farveg sem því hentar best.

Það eru ekki rök fyrir takmörkunum á lífi fólks og frelsi að heilbrigðisráðherra hafi brugðist þegar kemur að því að greiða úr vanda heilbrigðiskerfisins – sá vandi var til staðar fyrir Covid-19 og var þar enn þegar neyðarástandinu sleppti. Vandi sem hefði mátt ráðast að af festu í þetta eina og hálfa ár síðan vandinn varð öllum óþægilega ljós. Svandís Svavarsdóttir hefur ekki leyst fráflæðisvanda sjúkrahússins því hún hafnar aðkomu einkarekinna úrræða. Hún hafnar því að leita nýrra lausna til að fjölga plássum á spítalanum. Vandræði heilbrigðisráðherra réttlæta ekki sóttvarnatakmarkanir á líf fólks. Ekki núna frekar en áður.

 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins

bergthorola@althingi.is 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 15. október, 2021