Einkareknar stofnanir hunsaðar

Karl Gauti Hjaltason tók til máls í dag í störfum þingsins og ræddi um hjúkrunarrými og einkareknar stofnanir.

"Ég vil nýta tækifærið og ræða um hjúkrunarrými og nýlegar fréttir um ákall heilbrigðisráðuneytisins frá því í haust til forstjóra hjúkrunarheimila um fleiri hjúkrunarrými. Í Morgunblaðinu í dag er vakin athygli á harðri gagnrýni forsvarsmanna sjálfstæðra heilbrigðisstofnana á ráðherra og stjórnvöld fyrir að láta það sem kalla mætti kreddu eða þröngsýni í rekstri koma í veg fyrir að öll úrræði séu nýtt í kórónuveirufaraldrinum. Tilefnið eru viðtöl í nýútkomnu tölublaði Læknablaðsins og Morgunblaðið rekur, en þar segjast þau Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns, og Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar, vera hissa á að þau hjúkrunarúrræði sem þau hafa boðið séu ekki virt viðlits af stjórnvöldum. Á sama tíma og liðlega 100 sjúklingar sitja fastir á Landspítala, standi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir með tilbúin sjúkrarúm ónýtt á hliðarlínunni.

Herra forseti. Hér erum við að tala um ákall ráðuneytisins um hjálp þar sem stærri hugmyndum um lausnir í þessum efnum er hreinlega ekki svarað af hálfu ráðuneytisins. Hvað er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu? Er andstaðan þar innan dyra við einkaframtakið svo svæsin að ekki megi leysa mjög svo djúpstæðan vanda sem lengi hefur verið viðvarandi í þessum efnum?

Við höfum horft upp á það síðustu misseri að öllu stórgrýti sem fyrirfinnst er staflað í veg fyrir einkaframtakið. Þannig höfum við horft upp á hvernig frjálsum félagasamtökum hefur, að því er virðist, markvisst verið úthýst í ýmsum greinum heilbrigðismála. Og þá höfum við séð þvermóðskuna hvað varðar biðlista fyrir aðgerðir sem unnt er að framkvæma hér á landi með miklu minni tilkostnaði. En stjórnvöld heilbrigðismála telja betra að greiða erlendum einkaaðilum fyrir þær þó að það sé margfalt dýrara en að gera þessar aðgerðir á einkastofum hér á landi. Þetta ástand er ekki einungis á ábyrgð Vinstri grænna einna, heldur einnig samstarfsflokka þeirra í ríkisstjórn, ástand sem felur m.a. í sér að einkareknar stofnanir eru hunsaðar með þeim hætti sem lýst er í Læknablaðinu."

Mbl.is fjallaði um málið (sjá hér).

Upptöku af ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér