Hrósum því sem vel er gert

 

Bergþór Ólason tók til máls í Störfum þingsins í dag og byrjaði ræðu sína á að hrósa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að falla frá fyrirhuguðum gjaldskrárhækkunum Matvælastofnunnar. 

Hér má lesa ræðu Bergþórs í heild sinni: 

"Virðulegur forseti.

Ég ætla í dag að hrósa hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Við gerum eflaust ekki nógu mikið af því að hrósa fyrir það sem vel er gert en í dag á ráðherra hrós skilið. Á heimasíðu atvinnuvegaráðuneytisins birtist í morgun frétt þar sem segir, með leyfi forseta:

„Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að falla frá öllum gjaldskrárhækkunum Matvælastofnunnar á árinu 2020 vegna áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins á íslenska matvælaframleiðendur.“

Þetta er til fyrirmyndar og ég vil hvetja aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar til að fylgja í kjölfarið.

Að því sögðu vil ég nefna frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021. Þar er staðan heldur súrari. Í frumvarpi ráðherra eru lagðar til hækkanir á kolefnisgjaldi, olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi af áfengi og tóbaki. Gert er ráð fyrir að þessar hækkanir einar og sér skili ríkissjóði tæplega 1.800 millj. kr. á ári. Þá á að lögfesta nýjan gjaldalið eftirlitsgjalds fyrir fjármálaeftirlitið, þ.e. hækkun gjaldahlutfallsins vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, breytingar á fjárhæð losunargjalds samkvæmt lögum um loftslagsmál og fleira mætti nefna til sögunnar. Þá er ætlunin að hækka svokallaða nefskatta, þ.e. útvarpsgjaldið og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra. Því til viðbótar eru síðan ýmsar gjaldskrár opinberra stofnanna sem rétt væri að stöðva sjálfkrafa hækkun á en fordæmi er til staðar frá þeim tíma er núverandi og þáverandi fjármálaráðherra sat í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á árunum 2013–2016 þar sem ákveðið var að stöðva sjálfkrafa hækkanir gjalda í eitt ár. Ef ástæða var til þess á þeim tímapunkti er hún svo sannarlega til staðar í ár. Miðflokkurinn mun þegar þar að kemur greiða atkvæði gegn öllum þeim gjaldahækkunum sem ég nefndi hér að framan, enda verða þessir fjármunir ekki til upp úr engu heldur verða þeir sóttir í vasa einstaklinga og fyrirtækja."

Hér má sjá upptöku af ræðu Bergþórs