Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda og lögum um nauðungarsölu

 

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda og lögum um nauðungarsölu (nauðungarsala og eftirstöðvar).  Frumvarpið er eitt af forgangsmálum þingflokks Miðflokksins á þessu þingi.

Með frumvarpinu er gerð tillaga um hófsamlega breytingu sem getur þó haft mikla þýðingu fyrir neytendur í greiðsluerfiðleikum sem leiða til þess að þeir missa húsnæði sitt á nauðungarsölu.  Er það því til þess fallið að stuðla að skilvirkari úrlausn mála að eftirstandandi veðskuldir vegna fasteignalána skuli falla niður í kjölfar nauðungarsölu á hinni veðsettu fasteign neytanda, auk þess sem það myndi deila áhættu af lántöku á sanngjarnan hátt milli lántaka og lánveitanda.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær. 

Ennfremur segir í frumvarpinu að brýn nauðsyn þess að lögfesta úrræði á borð við það sem frumvarp þetta mælir fyrir um kom bersýnilega í ljós í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 þegar gengi krónunnar hríðféll með þeim afleiðingum að gengistryggðir lánssamningar urðu skuldurum ofviða. Verðlagsáhrif gengisfallsins höfðu sambærilegar afleiðingar fyrir verðtryggða lánssamninga. Úrræðaleysið sem blasti við neytendum olli fordæmalausu uppþoti í samfélaginu sem dró dilk á eftir sér. Nauðsynlegt er að læra af reynslunni og innleiða úrræði til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig.

Flutningsmaður frumvarpsins er Ólafur Ísleifsson, en allir þingmenn Miðflokksins eru meðflutningsmenn þessa frumvarps.  Flutningsræðu Ólafs má sjá og lesa hér.

Auk Ólafs tóku Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason og Sigurður Páll Jónsson til máls um frumvarpið fyrir hönd þingflokks Miðflokksins.  Ræður þeirra og umræðuna um frumvarpið í heild sinni má sjá og lesa hér.

Frumvarpið í heild sinni má lesa hér.

 Frumvarpið gengur nú til annarar umræðu og til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.