Ísland getur komið til hjálpar

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins,  hefur dvalið í Stepanakert, höfuðborg Nagorno-Karabakh síðustu daga ásamt Majed El Shafie stofnanda mannúðarsamtakanna One Free World International sem hann kynntist þegar hann vann fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Mið-Austurlöndum.   Birgir segir að Ísland geti komið til hjálpar strax með því að viðurkenna Karabakh sem sjálfstætt ríki og að önnur ríki munu þá fylgja í kjölfarið.

Í Stepanakert búa um 50.000 manns, en um 60% íbúanna hafa nú yfirgefið borgina vegna stríðsins og er því fámennt á götunum. Þeir sem enn eru í borginni þora þó margir hverjir ekki að gista heima og halda því til á nóttunni í byrgjum eins og kjallara dómkirkjunnar.    

Í borginni eru öll ljós slökkt á kvöldin og slökkt á farsímakerfum. Loftvarnarflautur fara í gang allt að tíu sinnum á hverjum degi.  Reglulega heyrast nokkuð öflugar sprengingar í fjarlægð.  Sagt er að það séu heimamenn að skjóta á dróna sem er eitt aðal-hernaðartæki þeirra Aserbaijan manna. Þessir drónar hafa um 1000 kílómetra drægni og eru í allt að 12 km hæð þegar þeir skjóta á fyrirfram ákveðin skotmörk, sem getur þess vegna verið maður á gangi á gangstétt. 

Óbreyttir borgarar, þar með talið börn, hafa látið lífið í stríðinu, bæði í Karabakh og Aserbaijan.

Birgir fundaði með utanríkisráðherra Karabakh ásamt nokkrum þingmönnum.  Mikið álag er á fólki þar sem þetta stríð er ólíkt fyrri stríðum.  Þetta er hátæknistríð með drónum sem erfitt er að verjast því þeir sjást ekki með berum augum.  Í upphafi stríðsins sem hófst fyrir 38 dögum voru allt að 1000 drónar í loftinu.  Allt að 4000 íslamistar eru að berjast með Aserbaijan.

„Gleymum því ekki að Tyrkir eru í NATO og er fullt tilefni til að taka málið upp á þeim vettvangi og hvet ég utanríkisráðherra Íslands til að gera það. Það er óverjandi með öllu að NATO ríki sé ráðningaskrifstofa fyrir hryðjuverkamenn auk þess er það brot á alþjóðalögum. Hér líta menn svo á að stríðið sé í raun gegn Tyrkjum sem noti Aserbaijan sem leiksopp. Þetta er því farið að minna óþægilega á þjóðarmorð Tyrkja gegn Armenum fyrir 100 árum“ segir Birgir.

Á blaðamannafundi sem Birgir sat ásamt Majed El Shafie, lagði hann til að óháðir aðilar sem nytu trausts yrðu kallaðir til í staðinn.

„Ísland getur komið til hjálpar strax með því að viðurkenna Karabakh sem sjálfstætt ríki, önnur ríki myndu þá fylgja í kjörfarið með viðurkenningu. Þá fyrst myndi alþjóðasamfélagið vakna til lífsins og komið yrði í veg fyrir annað þjóðarmorð“  sagði Birgir að lokum.

   

Birgi var boðið að fara til Nagorno-Karabakh með sendinefnd þingmanna frá Kanada, sendiherra Bandaríkjanna í Washington á sviði stríðsglæpa og stofnanda hjálpar- og mannréttindasamtakanna One Free World International, Majed El Shafie.  Rétt áður en kom að ferðinni fékk sendiherrann ekki fararleyfi af öryggisástæðum og hættu þá kanadísku þingmennirnir við ferðina, þannig að Birgir og Majed El Shafie enduðu á því að vera tveir.  Vert er að taka fram að ferðin var ekki á kostnað Alþingis.

RÚV fjallaði nánar um heimsókn Birgis og má lesa umfjöllunina hér.