Fjármagn til hafrannsókna og rannsókna á fiskistofnum

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, ræddi um fjármagn til hafrannsókna og rannsókna á fiskistofnum í störfum þingsins á Alþingi í dag:

"Hæstvirtur forseti. Þrátt fyrir allt ætla ég ekki að ræða um heimsfaraldur Covid-19 og ekki um bóluefni eða, eins og hv. þingmenn Viðreisnar sem voru hér á undan mér sögðu, um hið vonda Evrópusamband, heldur ætla ég að ræða um það sem þrátt fyrir allt er í þokkalegu jafnvægi og lætur ekki þetta trufla sig, en það er fiskurinn í sjónum sem syndir um og lætur sér fátt um finnast um þetta allt saman.

Við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að taka sneið af fiskstofnunum eftir ráðleggingar okkar færustu vísindamanna. Og þá er ég í raun og veru kominn að því sem ég ætlaði að tala um í þessari ræðu, þ.e. fjármagn sem sett er í hafrannsóknir og rannsóknir á fiskstofnum. Það er mikið gleðiefni að nýtt hafrannsóknaskip sé í smíðum, en það þarf líka fjármagn til að standa að rannsóknum. Nú er lítilli loðnuvertíð, eins og það er nefnt, nýlokið, en hún skilaði þjóðinni samt sem áður 30 milljörðum í þjóðarbúið. Það má þakka því að farið var í myndarlegar rannsóknir, bæði af hinu opinbera og af útgerðunum sem að þessu standa. Það vantar meira fjármagn í rannsóknir að mínu áliti og margra annarra. Það er mikil sveifla í ýsustofnsmælingum, lúðuveiðar eru bannaðar, enginn trúir á stofnstærðarmælingu grásleppunnar eins og hún er framkvæmd og þar fram eftir götunum. Fjármagn er það sem skiptir máli og það myndi skila í þjóðarbúið milljörðum til aukningar á innkomu ef betur væri haldið á málum."

Ræðu Sigurðar Páls í þingsal má sjá hér