Fjármál Reykjavíkurborgar

Fjármál Reykjavíkurborgar

 

Nýlega upplýsti fjármálaráðherra að halli ríkissjóðs gæti numið 500 milljörðum þegar allar aðgerðir vegna Covid-19 væru komnar fram. Hann setti málið í samhengi og sagði að þessi uppsafnaði halli ríkisins samsvarað því að hver fjögurra manna fjölskylda í landinu skuldaði 5,35 milljónir og þótti mér nóg um. Þessar upplýsingar vöktu athygli mína og ákvað ég því að spyrja hvert hlutfallið væri hjá hinni yfirskuldsettu Reykjavíkurborg. Í skriflegu svari sem mér barst voru ekki allar skuldir taldar fram – líklega til að gera hlut borgarinnar fegurri en hann er og tilgangurinn helgar meðalið. Ég lít það alvarlegum augum ef kjörnir fulltrúar fá rangar upplýsingar í hendur í lögbundnu eftirliti í störfum sínum.

Eftir síðustu lántöku Reykjavíkurborgar eru skuldir og skuldbindingar A-hluta/borgarssjóðs 116 milljarðar og skuldir samstæðunnar allrar 340 milljarðar. Skuldir A-hluta Reykjavíkur á hverja fjögurra manna fjölskyldu eru því tæpar 3,5 milljónir. Séu skuldir samstæðunnar allrar reiknaðar niður á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni eru það  tæpar 10,4 milljónir. Þessar staðreyndir eru skuggalegar í samanburði við skuldastöðu ríkisins.  Á grunni þessara upplýsinga má í raun segja að borgin sé orðin ógjaldfær. Hvergi sjást merki um sparnað eða ráðdeild í rekstri borgarinnar heldur eru gæluverkefni keyrð áfram af fullum þunga á meðan lögbundin þjónusta og grunnþjónusta eru látnar sitja á hakanum. Reykjavíkurborg greiðir rúman 1,6 milljarð í leigu á árinu 2019 þrátt fyrir að eiga mikið húsnæði. Tæplega 700 milljónir kostar útsvarsgreiðendur í Reykjavík að leigja Borgartún 10-12 á árinu 2019 undir skrifstofustarfsemi sína. Það sýnir okkur að margsinnis hafi borgað sig að byggja nýtt stjórnsýsluhús fyrir Reykjavík þegar ákvörðun var tekin að ganga inn í þann 25 ára leigusamning. Þessar upphæðir eru rosalegar. Minnt er á að Reykjavíkurborg á ráðhúsið og borgar þar af leiðandi ekki leigu þar. Í aðdraganda þess að ráðhúsið var tekið í notkun 1992 sagði þáverandi borgarstjóri að borgin þyrfti að eiga hús sem hýsti stjórnsýslu Reykjavíkur. Nú 18 árum síðan sést hvað stjórnsýsla Reykjavíkur hefur þanist út og kostnaður upp á 700 milljónir, bara í húsnæðiskostnað sendur til Reykvíkinga. Athygli hefur vakið hvað borgin fer fram á lága leigu til leigjenda sinna s.s. í mathöllum og bragga. Nú hef ég lagt inn fyrirspurn um hvaða leigutekjur Reykjavíkurborg fær af húsnæði sínu árið 2019 sundurgreint eftir fasteignum til að átta sig á mismuninum þegar borgin er leigutaki annar vegar og leigutaki hins vegar.

 

 

Með bestu kveðju

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins

 

Greinin birtist fyrst í  Árbæjar-Grafarvogs og Grafarholtsblaðinu