Fjórði orkupakkinn vofir yfir

Iðnaðarráðherra hef­ur svarað fyr­ir­spurn minni á Alþingi um mat á fjórða orkupakk­an­um. Þar er lýst hefðbund­inni meðferð með skip­an vinnu­hóps og öðru í þeim dúr en ekk­ert minnst á að í und­ir­bún­ingi séu lög­fræðileg­ar álits­gerðir sem reynd­ust þýðing­ar­mikl­ar í umræðum liðins árs um þriðja orkupakk­ann. Þær komu fyrst fram fáum vik­um áður en málið var rætt á Alþingi vorið 2019. Þá voru tvö ár liðin frá því Ísland skuld­batt sig á vett­vangi EES til að inn­leiða þriðja orkupakk­ann. Talið var af hálfu stjórn­valda að þá skuld­bind­ingu mætti ekki aft­ur­kalla þrátt fyr­ir ákvæði ESS-samn­ings­ins í gagn­stæða átt.
 

Spyrna þarf við fót­um

Þriðji orkupakk­inn dró fram að stjórn­völd telja sér ekki heim­ilt að neita að taka upp í lands­lög Evr­ópu­regl­ur þótt þær kunni að rek­ast á stjórn­ar­skrá og gangi gegn full­veldi þjóðar­inn­ar yfir auðlind­um sín­um. Gegn þessu stóð Miðflokk­ur­inn einn flokka.

Mik­il tíðindi urðu á vett­vangi Evr­ópu­sam­bands­ins með dómi þýska stjórn­laga­dóm­stóls­ins 5. maí sl. Dóm­ur­inn ber með sér yf­ir­lýs­ingu um að Þýska­land sé sjálf­stætt ríki sem aðild á að sam­starfi full­valda ríkja en ekki runnið inn í evr­ópskt ríkja­sam­band. Líkt er okk­ur Íslend­ing­um farið. Við get­um ekki látið und­an kröf­um um af­sal for­ræðis yfir auðlind­um okk­ar. Raf­orkan er ekki eina dæmið um þjóðar­hags­muni. Inn­flutn­ing­ur hráa kjöts­ins ógn­ar dýra­heil­brigði og lýðheilsu og verður að hrinda með laga­setn­ingu. Tími er kom­inn til að Íslend­ing­ar spyrni fast við fót­um og fari þar að dæmi Þjóðverja í síðasta mánuði.

Viðvar­an­ir sér­fræðinga

Lög­fræðileg­ir ráðunaut­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar, Friðrik Árni Friðriks­son Hirst og Stefán Már Stef­áns­son, lýsa í áliti sínu hættu á árekstr­um við stjórn­ar­skrá. Þeir lýsa hvernig er­lend­um aðilum eru fal­in a.m.k. óbein áhrif á skipu­lag, ráðstöf­un og nýt­ingu mik­il­vægra orku­auðlinda þjóðar­inn­ar verði lagður sæ­streng­ur und­ir Evr­ópu­regl­um að strönd­um lands­ins. Þeir vara við hættu á samn­ings­brota- og skaðabóta­mál­um. Slík mál gætu risið ef Orku­stofn­un hafnaði beiðni um teng­ingu við raf­orku­kerfið af hálfu fyr­ir­tæk­is sem borið gæti Evr­ópu­regl­ur fyr­ir sig. Sést af áliti lög­fræðing­anna að við þess­ar aðstæður yrði fátt um varn­ir.

Svar ráðherra ber með sér að eng­ir lær­dóm­ar hafi verið dregn­ir af þriðja orkupakk­an­um. Hinn stjórn­skipu­lega þátt og aðrar lög­fræðileg­ar spurn­ing­ar þarf að kanna mun fyrr í ferl­inu en gert var. Nú er rétti tím­inn til að leita álits sér­fræðinga á fjórða orkupakk­an­um áður en það er orðið of seint.

 

Höf­und­ur:  Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokks­ins í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 16. júní, 2020