Flug til framtíðar (lengri útgáfa greinarinnar)

Fyrir nokkru stóð Markaðsstofa Norðurlands fyrir fundi á Akureyri um flugmál sem var afar vel sóttur. Fram kom á fundinum að ekki er gert ráð fyrir millilandaflugi um Akureyrarflugvöll í drögum að grænbók um flugstefnu. Í þessum sömu drögum kemur fram að byggja eigi upp varaflugvöll á Egilsstöðum og það er virkilega gott en við frekari lestur kemur í ljós að ekki er ætlunin að hleypa farþegum út úr flugvélum á Egilsstöðum heldur á flugvöllurinn að verða nokkurskonar geymslustaður flugvéla þangað til að hægt verður að fljúga þeim á áfangastað.

Ferðaþjónustuaðilar á Norðausturlandi hafa lagt sig fram við að koma á fót heilsárs ferðaþjónustu. Með þeirri ákvörðun stjórnvalda að leggja ekki til krónu til uppbyggingar Akureyrarflugvallar næstu árin er óásættanlegt, það er furðulegt og jafnvel ósanngjarnt að stilla málum upp þannig að þegar uppbygging á Egilsstaðarflugvelli verður að veruleika og því ber að fagna, að þá sé skyndilega dregið úr allri uppbyggingu á Akureyri. Varla þarf eitt að útiloka annað þegar ætlunin er að skilgreina flug sem almenningssamgöngur. Undanfarin 8 ár hefur verið unnið hörðum höndum að því að koma á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll, sveitarfélög hafa lagt til 90 milljónir til verkefnisins og ljóst er að um milljarður hefur skilað sér beint inn í hagkerfið.

Þetta er í sjálfu sér ákveðið afrek þar sem því er haldið fram að flugvöllurinn á Akureyri sé sprunginn, hann beri ekki stórar flugvélar. Vitað er að bæta þarf aðstöðu flugvallarins til þess að hægt verði að gera enn betur, klára þarf flughlaðið og ráðast þarf í stækkun flugstöðvarinnar, bæta þarf ýmsa aðstöðu vegna stiga-, eldsneytis- og dráttarbíla en einnig þarf að jafna eldsneytiskostnað og viðhalda tilvist flugþróunarsjóðs. Allt eru þetta þættir sem teljast má sjálfsagða í ljósi þess að millilandaflug um Akureyrarflugvöll hefur nú þegar skilað umtalsverðum fjármunum. Ekki nægir að segja að flugþróunarsjóður verði settur aftur á fót ef þörf myndast eða með öðrum orðum, flugþróunarsjóð á að nýta til þess að markaðssetja áfram aðra flugvelli utan Keflavíkur eins og segir í drögum að grænbók um flugstefnu:

„Stuðningur ríkisins við millilandaflug á aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll fari fyrst og fremst í gegnum flugþróunarsjóð“. Enda var það markmið flugþróunarsjóðs í upphafi að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði, við þetta þarf að standa. Við þingmenn Miðflokksins höfum lagt fram þingsályktun um ráðstafanir til að lækka eldsneytiskostnað í millilandaflugi, í greinargerð með tillögunni segir:

Samkvæmt lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara skal jafna flutningskostnað á olíuvörum eins og nánar er þar kveðið á um. Markmið laganna er að tryggja að eldsneytisverð sé hið sama um allt land til að jafna búsetuskilyrði og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Jöfnun á flutningskostnaði á hins vegar ekki við um eldsneyti sem er ætlað til útflutnings og fellur þar undir eldsneyti til millilandaflugs og því er eldsneyti dýrara á millilandaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum heldur en í Keflavík. Með tillögu þessari er lagt til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra undirbúi lagafrumvarp í þá veru að breyting verði á til að verð á eldsneyti í millilandaflugi lækki. Slík breyting mundi styrkja stöðu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og ýta undir dreifingu ferðamanna um landið“.

Tækifærin blasa við, það er vel hægt að byggja áfram upp sjálfbæra ferðaþjónustu í landinu. Þó svo að þessum hlutum verið komið í lag þá er ekki þar með sagt að ekki eigi að byggja upp á Egilsstöðum. Það sem þarf er pólitísk ákvörðun, stefnumótun um að líta á landið sem eina heild og virkja slagorðið „Allt Ísland, allt árið“, það gagnast öllum. Það er því beinlínis nauðsynlegt að halda áfram að styðja við og styrkja enn frekar þá vinnu sem hafin er, annað er óábyrgt. Það er líka ágætt að hafa það í huga í þessu sambandi að það eru tapaðir fjármunir sem felast í því að stjórnvöld bakki endanlega út úr verkefninu núna, þetta er ekki aðeins byggðamál heldur er það þjóðhagslega hagkvæmt og okkur ber að opna fleiri gáttir inn í landið, líka á virkum dögum og ekki aðeins í hátíðarræðum.

 

Höfundur:  Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi

Greinin birtist á Vikudagur.is þann 3. nóvember, 2019