Forsenda EES var óskert fullveldi

Eftirfarandi er viðtal við Ólaf Ísleifsson, þingmann Miðflokksins, sem birtist í Morgunblaðinu þann 6. október, 2020:

Lokaviðvörun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til Íslands, sem send var í 18 síðna bréfi til íslenskra stjórnvalda hefur vakið nokkra athygli, enda vill ESA að Evrópureglur gangi framar íslenskum landslögum, þegar þeim ber ekki saman. Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurn um þetta mál til utanríkisráðherra fyrir ári, en í svari ráðherra, sem birt var fyrir viku, voru reifuð helstu sjónarmið Íslands. Þar eru stjórnskipuleg álitaefni efst á blaði, einkum hvað stjórnarskrána áhærir, en einnig er vikið að því að þýski stjórnlagadómstóllinn hafi fyrr á þessu ári hafnað því að Evrópuréttur gengi framar lögum og stjórnarskrá Þýskalands. Ólafur telur hið sama eiga við á Íslandi.

„Það er ekki nokkur leið að sjá það í ljósi 2. og 21. greinar stjórnarskrár lýðveldisins, að það sé hægt að mæla fyrir um það í íslenskum lögum að evrópskar réttarreglur skuli ganga framar íslenskum réttarreglum ef þær rekast á.“

Fráleitt að krefjast aðgerða andstæðra stjórnarskrá

Þetta telur hann að þurfi að ræða nánar við ESA, enda sé erfitt að sjá fyrir sér, að EFTA-dómstóllinn gerði kröfu til Íslands um samningsákvæði, sem ekki yrði fullnægt nema með því að breyta stjórnarskrá landsins. „Það er fráleitt að gera sér í hugarlund að dómstóllinn myndi krefjast þess af aðildarríki samningsins, fullvalda ríki, að það grípi til aðgerða sem ganga gegn stjórnarskránni, nú eða breyti stjórnarskrá sinni.“

Væri EFTA-dómstóllinn þá farinn að færa sig upp á skaftið, orðinn löggjafi frekar en dómsvald? „Það hlyti að vera mikið umhugsunarefni fyrir slíkan dómstól, ef hann ætlaði að fara að efna til stjórnskipulegs ágreinings við aðildarríki. Slíkt væri ekki aðeins ögrun við það ríki, heldur öll önnur ríki í því samstarfi,“ segir Ólafur og bætir við: „Ef Evrópustofnanir vilja grafa undan trausti á því alþjóðlega samstarfi, sem Evrópska efnahagssvæðið er, þá þyrftu þær nú að hugsa sig um tvisvar.“

Forgangur Evrópuréttar ekki að óbreyttri stjórnarskrá

Ólafur bendir á að þessar áhyggjur séu ekki nýjar af nálinni. „Þessi mál voru rædd í kringum þriðja orkupakkann í fyrra. Þá var margítrekað af hálfu þeirra, sem báru ábyrgð á aðildinni að EES, að það væri alger forsenda aðildar okkar að þeim samningi, að Ísland hefði neitunarvald varðandi þætti, sem snertu fullveldi þjóðarinnar.“ Á hið sama við í þessu máli? „Það er greinilegt af þessu bréfi ESA og stöðu málsins, að það verður ómögulega séð að það sé hægt að lögfesta hér forgang Evrópureglna umfram íslenska lagareglu að óbreyttri stjórnarskrá. Þetta er kjarni málsins.“ Er Ísland ekki að falla á tíma? „Þessi frestur nú er ekki nema þrír mánuðir, sem er ekki langur tími þegar svo veigamiklir hagsmunir eru undir. Eftirlitsstofnunin hlýtur að gefa sér rýmri tíma til þess að eiga í þeim viðræðum við íslensk stjórnvöld.“