Framkvæmdir í samgöngumálum

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn um framkvæmdir til innviðauppbyggingar til umhverfis- og sveitarstjórnarráðherra á Alþingi í dag:

"Margoft höfum við fylgst með ríkisstjórninni tilkynna aukið fjármagn í opinberar framkvæmdir til innviðauppbyggingar. Slíkar yfirlýsingar hafa stjórnvöld verið að gefa landsmönnum allt frá því að ríkisstjórnin tók við völdum fyrir þremur og hálfu ári. Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks frá 2017 er talað um að hraða uppbyggingu í vegamálum og farið mörgum orðum um þau brýnu verkefni sem blasa við í innviðauppbyggingu um allt land. Á þessum hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar átti að taka til hendinni og vinna upp þá miklu fjárfestingarþörf sem við blasti, m.a. í vegakerfinu. Á þessum fyrstu dögum stjórnarinnar kynntu stjórnvöld þau stóru verkefni sem ráðast þyrfti í, þar á meðal tvöföldun stofnleiða út frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes. Nokkrum sinnum síðan hafa stjórnvöld tilkynnt um aukið fé til vegamála, nokkrum sinnum. Ríkisstjórnin hefur einnig kynnt sérstakar flýtiframkvæmdir. Ríkisstjórnin kynnti sérstakar auknar opinberar framkvæmdir í byrjun árs 2019 þegar ljóst var að fjárfestingar atvinnulífsins voru að dragast saman. Skemmst er að minnast þess átaks sem boðað var í upphafi Covid-faraldursins þar sem veita átti aukið fé til framkvæmda á vegum hins opinbera til að blása lífi í atvinnulíf landsmanna vegna aukins atvinnuleysis. Áttu það að vera sérstakar hagstjórnaraðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Þegar þessar yfirlýsingar eru hafðar í huga kemur verulega á óvart nýlegt mat Hagstofu Íslands þar sem segir að opinberar framkvæmdir hafi dregist saman um tæp 11% á árinu 2019 og aftur á síðasta ári, árið 2020, drógust opinberar framkvæmdir saman um 9,3%.

Því vil ég spyrja hæstvirtan samgönguráðherra:

Hefur hæstvirtur ráðherra einhverjar skýringar á því að opinberar framkvæmdir dragast saman ár eftir ár þrátt fyrir ítrekuð og fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar um auknar framkvæmdir? Kemur þetta hæstvirtum ráðherra á óvart eins og mér? Hvert fóru þessir peningar? Eða komu þeir aldrei?"

Upptöku af fyrirspurn Karls Gauta í þingsal má sjá hér