Freka konan og borgarlínan

Freka konan og borgarlínan

Þriðjudagur, 14. júlí 2020

 

Formaður skipu­lags- og sam­gönguráðs Reykja­vík­ur, pírat­inn Sig­ur­borg Ósk Har­alds­dótt­ir skrifaði grein í Morg­un­blaðið í gær. Þar lýsti hún því að tími freka karls­ins væri liðinn. Þar vísaði formaður­inn til þess að tími fram­kvæmda á stofn­brauta­kerfi höfuðborg­ar­svæðis­ins sem ætlaðar væru til að liðka fyr­ir um­ferð fjöl­skyldu­bíls­ins hefði nú runnið sitt skeið á enda. Það er víst stefna freka karls­ins að vilja liðka fyr­ir um­ferð!?

Formaður skipu­lags- og sam­gönguráðs má eiga það að hún hef­ur viður­kennt og að því er virðist bein­lín­is hreykt sér af því að ætla að þvinga íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins í borg­ar­lín­una. Það verði meðal ann­ars gert með því að tryggja „færri bíla­ak­rein­ar og færri bíla­stæði“. Svo virðist sem freka kon­an sé hálfu verri en freki karl­inn. Vilji og val borg­ar­búa virðist ekki skipta borg­ar­full­trú­ann nokkru máli. Sam­fé­lags­verk­fræðin er alls­ráðandi og trú­in á borg­ar­lín­una virðist trompa öll rök og raun­ar alla teng­ingu við raun­veru­leik­ann.

Það er ólík­legt að viðlíka frekja og yf­ir­gang­ur hafi viðgeng­ist á fyrri stig­um hvað skipu­lags­mál höfuðborg­ar­inn­ar varðar. Öll meðul virðast leyfi­leg þegar kem­ur að því að þrengja að fjöl­skyldu­bíln­um, sem mik­ill meiri­hluti borg­ar­búa hef­ur þó valið sér sem meg­in­ferðamáta.

Lít­il virðing for­manns skipu­lags- og sam­gönguráðs (og for­vera henn­ar) fyr­ir sjón­ar­miðum hins al­menna borg­ar­búa end­ur­spegl­ast í fjöl­mörg­um mál­um. Grens­ás­veg­ur­inn var þrengd­ur, Hofs­valla­gat­an var þrengd, strætó­stoppistöð komið fyr­ir á miðri Geirs­götu, Haga­torg er ekki leng­ur hring­torg, batta­völl­ur fell­ur af himn­um ofan og svona mætti áfram telja. Fram­gang­an gagn­vart flug­vell­in­um í Vatns­mýr­inni er síðan kapí­tuli út af fyr­ir sig.

Það læra börn­in sem fyr­ir þeim er haft. Þegar fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri henti 70.663 und­ir­skrift­um til stuðnings flug­vall­ar­starf­semi í Vatns­mýri í ruslið, með þeim orðum að hann hefði nú reiknað með þeim fleiri, varð breyt­ing á hvernig borg­ar­yf­ir­völd taka til­lit til sjón­ar­miða borg­ar­búa. Enda­laus­ar frétt­ir und­an­far­in ár, þar sem íbú­ar kvarta yfir því að ekk­ert mark sé tekið á umkvört­un­um þeirra eða ábend­ing­um, segja sína sögu.

Nú­ver­andi meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Reykja­vík, með öll­um sín­um vara­dekkj­um, virðist ætla að setja und­ir sig haus­inn og þvinga íbúa höfuðborg­ar­inn­ar inn í svo­kallaða borg­ar­línu. Allt ger­ist þetta nú í boði Viðreisn­ar, sem tók að sér að vera nýj­asta vara­dekkið und­ir vagni borg­ar­stjóra. Lít­il veiklu­leg vara­dekk sem ætluð eru til þess eins að koma bif­reið á næsta dekkja­verk­stæði ganga und­ir ákveðnu nafni. Það kem­ur á óvart að flokk­ur Bene­dikts Jó­hann­es­son­ar taki að sér að vera í því hlut­verki. bergt­horola@alt­hingi.is

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í NV-kjördæmi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14.7.2020