Girðingarlög - Frumvarp til laga

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir frumvarpi sínu um breytingu á girðingarlögum, nr. 135/2001, með síðari breytingum um sanngirniskröfu og hæfi úrskurðaraðila.

Frumvarp sama efnis var áður flutt á 149. og 150. löggjafarþingi (231. mál).  Í 5. gr. girðingarlaga, nr. 135/2001, kemur fram sú meginregla að vilji umráðamaður lands girða það eigi hann rétt á að krefjast þess að þeir sem land eiga að fyrirhuguðu girðingarstæði greiði girðingarkostnaðinn að jöfnu að teknu tilliti til lengdar girðingar fyrir landi hvers og eins. Er sú regla eðlileg og er ekki gert ráð fyrir að horfið verði frá þeirri skipan sem meginreglu.  Eigi að síður þykir rétt að slá þann varnagla að reglunni verði ekki beitt ef sú niðurstaða yrði auðsjáanlega talin ósanngjörn gagnvart þeim sem kröfunni er beint að.

Samkvæmt gildandi lögum skulu úrskurðaraðilar skv. 7. gr. m.a. úrskurða um kostnaðarskiptingu vegna girðingar. Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á því en meðal þeirra álitaefna sem komið geta til kasta úrskurðaraðila samkvæmt ákvæðinu verða sjónarmið um sanngirni krafna um kostnaðarskiptingu samgirðinga. Þau atriði sem gert er ráð fyrir að framvegis geti komið til skoðunar við kostnaðarskiptingu eru þess eðlis að rétt þykir að a.m.k. einn fagaðila sé löglærður. Í því skyni er með 2. gr. frumvarpsins lagt til að sá fagaðili sem tilnefndur er af sýslumanni skv. 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. skuli uppfylla skilyrði þess að vera skipaður héraðsdómari samkvæmt ákvæðum dómstólalaga.

Loks er í frumvarpinu kveðið á um sex mánaða málshöfðunarfrest vilji aðili ekki una niðurstöðu úrskurðaraðila, hvort sem er að hluta eða öllu leyti. Gert er ráð fyrir að slíkt dómsmál megi höfða fyrir dómi í þinghá þar sem hin umdeilda girðing er. Liggi girðingin um fleiri en eina þinghá ráði málshöfðandi í hverri þeirra hann sæki málið. Jafnframt verði heimilt að höfða slíkt mál samkvæmt reglum V. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.  Frumvarpið má lesa í heild sinni hér.

Flutningsmaður:  Bergþór Ólason

Meðflutningsmenn:   Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.

Flutningsræðu Bergþórs í þingsal má sjá hér