Innheimtulög - Frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir frumvarpi sínu um breytingu á innheimtulögum nr. 95/2008 (leyfisskylda o.fl.).

 Frumvarp þetta var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi og 150. löggjafarþingi (158. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt lítillega breytt.

Frumvarpið á rætur að rekja til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8302/2014 vegna kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna yfir skorti á eftirliti með innheimtustarfsemi. Við meðferð málsins kom í ljós að nokkur fyrirtæki sem stunduðu innheimtustarfsemi störfuðu án eftirlits þar sem óljóst var hvort þau féllu undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins eða Lögmannafélags Íslands, með þeirri afleiðingu að hvorugt þeirra hafði í raun eftirlit með þeim.

Með lögum nr. 55/2018 voru breytingar gerðar á innheimtulögum sem ætlað var að bregðast við niðurstöðum umboðsmanns Alþingis í fyrrnefndu máli, en gengu í raun í öfuga átt. Síðan þá hafa komið fram ábendingar um að breytingarnar hafi ekki reynst eins vel og ætlast var til. Svo virðist sem enn starfi innheimtufyrirtæki án eftirlits eða óljóst sé hvernig eftirliti er háttað og breytingin hafi því ekki tekið af öll tvímæli um það. Við samningu frumvarps þessa hefur verið tekið mið af slíkum ábendingum.

Í innheimtulögum er innheimtuaðilum skipt í tvo hópa, annars vegar þá sem eru að meginreglu leyfisskyldir skv. 1. mgr. 3. gr. og falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. 16. gr. og hins vegar tiltekna aðila sem eru undanþegnir leyfisskyldu skv. 2. mgr. 3. gr. Undantekningarákvæði 2. mgr. 3. gr. á m.a. við um opinbera aðila, fjármálafyrirtæki, lögmenn og lögmannsstofur. Þetta fyrirkomulag er í sjálfu sér ekki óeðlilegt í ljósi þess að fjármálafyrirtæki eru, svo dæmi sé tekið, þegar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, en Lögmannafélag Íslands fer með eftirlit með störfum lögmanna. Ætla má að sérstaða lögmanna samkvæmt innheimtulögum stafi af því að innheimta á kröfum skjólstæðinga er oft liður í lögmannsstörfum sem má skilgreina sem aukastarf með aðalstarfseminni, þ.e. lögmannsþjónustu. Sambærilega undanþágu er t.d. að finna í 4. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þegar um tilfallandi þjónustu er að ræða og hún veitt sem eðlilegur þáttur í víðtækara viðfangsefni á starfssviðinu.

Eftir sem áður hefur verið bent á að það sé óeðlilegt og geti skapað óvissu og glufur í eftirliti ef fyrirtæki sem hafa innheimtu að meginstarfsemi sinni geta sniðgengið starfsleyfisskyldu með því einu að skráðir eigendur þeirra séu lögmenn. Jafnframt er það til þess fallið að raska samkeppnisstöðu innheimtuaðila með starfsleyfi sem uppfylla öll skilyrði þess, að önnur fyrirtæki á sama markaði geti komið sér hjá leyfisskyldu. Með frumvarpi þessu er því lagt til að skýrari aðgreining verði gerð á milli fyrirtækja með lögmannsþjónustu sem aðalstarfsemi og fyrirtækja sem hafa innheimtu fyrir aðra sem aðalstarfsemi, og tekin verði af öll tvímæli um starfsleyfisskyldu hinna síðarnefndu án tillits til eignarhalds. 

Frumvarpið gengur nú til 2. umræðu og til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Frumvarpið má lesa í heild sinni hér

Flutningsmaður:  Ólafur Ísleifsson

Meðflutningsmenn:  Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.

Flutningsræðu Ólafs og umræður um málið í þingsal má sjá hér