Geð- og fíknisjúkdómar ungs fólks

Á mánu­dag var sér­stök umræða á Alþingi um geðheil­brigðismál ungs fólks, einkum þess hóps sem jafn­framt geðrösk­un­um hef­ur glímt við fíkni­vanda.  Umræðan vakti enga at­hygli fjöl­miðla svo merki­legt sem það nú virðist. Það ánægju­lega er að sam­hljóm­ur var í máli nær allra sem til máls tóku um að við svo búið mætti ekki standa.  Und­an­far­in miss­eri hafa borist frétt­ir af ótíma­bær­um and­lát­um ungs fólks sem hef­ur átt við geðræn­an og/​eða fíkni­vanda að stríða.  Þannig hef­ur fjöldi ungs fólks í blóma lífs­ins látið líf sitt bæði vegna ofskammta og fyr­ir eig­in hendi þegar öll sund hafa lokast. Meðal ann­ars hef­ur ein­stak­ling­um sem mæta í bráðaþjón­ustu Geðsviðs verið út­hýst jafn­vel þótt þeir glími við sjálfs­morðshugs­an­ir. Þetta ástand er með öllu óþolandi og bregðast verður við með marg­vís­leg­um hætti til að reyna að hamla þess­ari óheillaþróun. Fyrst af öllu þarf að bregðast við þeim bráðavanda sem nú rík­ir með því að nú þegar verði gerð stjórn­sýslu­út­tekt á geðsviði Land­spít­ala Há­skóla­sjúkra­húss. Að henni lok­inni verði all­ir ferl­ar yf­ir­farn­ir og end­ur­skoðaðir. Ljóst er að veita þarf meiri fjár­mun­um til geðsviðsins; bæði er hús­næði ófull­nægj­andi og starfs­fólk sviðsins er of fá­mennt og sinn­ir störf­um sín­um við erfiðar aðstæður. Til lengri tíma litið verður að grípa til marg­vís­legra ráðstaf­ana og þar þurfa marg­ir að hafa aðkomu. Brýnt er að auka sál­fræðiþjón­ustu í grunn- og fram­halds­skól­um, svo og að efla þjálf­un í lífs­leikni. Auka þarf þátt­töku ungs fólks í íþrótta- og tóm­stund­a­starfi. Að fram­an­sögðu er ljóst að sam­eig­in­legt átak margra þarf til. Alþingi, rík­is­stjórn, sveit­ar­stjórn­ir, skóla­yf­ir­völd, heil­brigðis­starfs­fólk og frjáls fé­laga­sam­tök, svo ein­hverj­ir séu nefnd­ir, þurfa að taka hönd­um sam­an um öfl­uga for­vörn og hug­ar­fars­breyt­ingu svo hægt sé að koma í veg fyr­ir að næstu ár­gang­ar verði jafn illa varðir fyr­ir ógn­inni.

 

Þegar hef­ur verið brugðist við vanda vegna lyf­seðils­skyldra lyfja með því að breyta verklagi og er það vel. En um leið hef­ur ekki verið brugðist nægi­lega við þeim vanda sem skap­ast þegar snögg­lega er dregið úr ávís­un­um lyfja. Hér þarf að taka á strax. Auk þess þarf að stór­efla toll­gæslu og lög­reglu í bar­áttu þeirra við það flóð fíkni­efna sem að steðjar, bæði inn­fluttra og heima­feng­inna. Eft­ir viku verður 2. umræða fjár­laga á dag­skrá. Þar mun Miðflokk­ur­inn færa fram til­lög­ur sem geta orðið til að bæta það ófremd­ar­ástand sem nú rík­ir. Ef marka má sam­stöðuna í þingsal í fyrra­dag verður þeim til­lög­um vænt­an­lega vel tekið. Ljóst er að við eig­um ekki og við meg­um ekki standa hjá aðgerðarlaus og horfa upp á unga fólkið okk­ar sem erfa á landið verða geð- og fíkni­sjúk­dóm­um að bráð.

 

Höf­und­ur:  Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokks­ins í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 6. nóvember, 2019