Gengið á rétt einhverfra barna

Á hyggjufullir foreldrar einhverfs barns sneru sér til mín fyrir skömmu en barnið hefur grunnskólagöngu sína í haust. Eftir langa bið lá fyrir niðurstaða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um að barninu væri best borgið í sérdeild fyrir einhverfa og þar var sótt um. Þá brá svo við að foreldrum barnsins var tilkynnt um fyrirhugaða synjun í bréfi frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Um leið var upplýst að sótt hefði verið um fyrir 38 nemendur í sérdeildum en aðeins átta pláss væru til ráðstöfunar.

Af 38 nemendum með einhverfu komast einungis átta að. Þetta þýðir að 30 börn njóta ekki lögbundins réttar um kennslu við sitt hæfi. Borgaryfirvöld virðast skeytingarlaus um þann rétt sem börnum er tryggður í lögum.

Í lögum um grunnskóla segir um rétt nemenda: „Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan.“ Fyrirhuguð synjun um skólavist í sérhæfðri deild fyrir einhverfa nemendur fer í bága við þetta afdráttarlausa lagaákvæði.

Kennsla í grunnskólum er á ábyrgð og kostnað sveitarfélags þar sem barnið býr. Frá þeirri skyldu eru engar undantekningar. Menntamálaráðuneyti hefur ríka eftirlitsskyldu samkvæmt lögunum. Ráðherra verður að gera skýra grein fyrir hvernig staðið er að lögboðnu eftirliti og hvernig sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem grunnskólalögin kveða á um.

Landssamtökin Þroskahjálp starfa undir kjörorðinu Mannréttindi fyrir alla! Í stefnu sinni leggja þau áherslu á að börn með fötlun eigi rétt á þjónustu sérmenntaðs starfsfólks. Kennslan og þjálfun skal ætíð taka mið af þörfum barnsins sjálfs og námskrá aðlöguð einstaklingsbundnum forsendum hvers nemanda. Markmið í námi skulu markviss og mælanleg. Allt skólahúsnæði skal vera aðgengilegt fyrir fatlaða og tryggja þarf að aðstaða fyrir sérstuðning og þjálfun sé þar til staðar. Ég hefi verið upplýstur um að um 30% grunnskólanema í Reykjavík þurfi aukinn stuðning í námi umfram það sem bekkjarkennari annast. Umfram þá hópa barna sem að ofan er getið má nefna börn með ADHD, lesblindu, hegðunarvanda og kvíða og börn af erlendum uppruna. Ekki kemur til greina að börn beri hallann af vanrækslu sveitarfélags eða ráðuneytis gagnvart lögboðnum rétti þeirra til að njóta kennslu við sitt hæfi.

Foreldrar einhverfra barna hafa í fjölmiðlum lýst reiði sinni og örvæntingu. Viðbrögð þeirra eru skiljanleg. Foreldrar og aðrir vandamenn eiga ekki að þurfa að standa í baráttu fyrir lögvörðum rétti barna sinna. Ákvæði laga um grunnskóla eru skýr: Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi.

 

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður

olafurisl@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 7. maí, 2021