Gleðin í gegnum gluggann

 

Gleðin í gegnum gluggann

Hvernig líður þér? Eru allir hressir? Þú manst að passa þig á að fara eftir reglum um sóttvarnir, er það ekki? Ertu ekki örugglega með sprittið á þér? Þetta eru setningar sem við segjum örugglega margoft á dag við okkar nánustu, fólkið sem okkur þykir vænt um, heimilisfólkið sem við viljum passa svo það verði ekki veikt af Covid-19 og smiti jafnvel okkur sjálf.

Á varðbergi

Við erum stöðugt á varðbergi til að forðast þennan óvelkomna vágest. Athygli okkar allra er á smitgát, en einmitt þess vegna þurfum við líka að búa svo um hnútana í orðavali og athöfnum að börnin, ungmennin og eldra fólkið okkar verði ekki hræddara. Við þurfum að passa að börnin fylgist ekki of mikið með fréttum í útvarpi og sjónvarpi. Þau heyra orðin sem stinga; dauði, látnir, öndunarvélar, forðumst fólk og ná ekki samhenginu og geta þar af leiðandi upplifað hræðslu og kvíða vegna þess að það eru ALLIR að tala um þennan skæða sjúkdóm.

Uppbyggileg samskipti

Eitt það erfiðasta um þessa páska er sú staðreynd að hjúkrunarheimilin, heimili eldra fólks eru lokuð fyrir heimsóknum og margt eldra fólk hefur farið í sjálfskipaða sóttkví. Nú reynir á að sem flestir upphugsi leiðir sem henta til þess að geta séð sitt fólk og átt með því jákvæð og uppbyggileg samskipti þótt með allt öðru sniði sé en áður. Er hægt að guða á gluggann, senda fingurkossa og bros, er hægt að ná sambandi í gengum símann eða nota aðra tækni með mynd? Hjúkrunarfólk víðast hvar er án efa boðið og búið til að huga að þörfum hvers og eins og hjálpa til eins og hægt er.

Öll él birti upp um síðir

Það er auðvitað dapurlegt að geta ekki kysst og faðmað sína nánustu og ekki notið návista við fólkið sitt, þótt ekki væri nema með tveggja metri millibili. En eitt af því sem sjálfbjargarviðleitnin kennir okkur er trúin á það að þetta taki enda, að öll él birti upp um síðir. Það er standreynd að hugsun fólks er mismunandi og það sem einum kann að finnast óyfirstíganlegt finnst öðrum mun minna mál. Og hvort ætli sé mikilvægara?

Ástandið mun batna

Það hlýtur að vera mikilvægara að hafa trú á að ástandið batni og að leita lausna sem koma að gagni í stað þess að gera ekki neitt. Við einsetjum okkur að fara eftir sóttvörnum, stuðlum þar með að samfélagslegum aðgerðum og ákveðum að gefast ekki upp, heldur hugsa jákvætt í stað þess að einblína á þá svörtustu sýn sem gæti komið upp. Með því móti höfum við líka jákvæð áhrif á börnin okkar og eldra fólk. Líklega hafa allir einhverjar áhyggjur, en vonandi finna flestir aðferðir sem virka til að draga úr einmannaleika eldra fólksins okkar um páskahelgina og næstu vikur.

Gleðilega gluggapáska og takk fyrir að sinna sameiginlegum samfélagslegum aðgerðum.

Una María Óskarsdóttir

Uppeldis- menntunar- og lýðheilsufræðingur

Varaþingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi