Hið óþarfa leynifélag RÚV ohf.

Rík­is­út­varpið (RÚV ohf.) hef­ur nú stigið nýtt skref í þá átt að líta á sig sem ríki í rík­inu.  Það gerði það vit­an­lega með því að ákveða að leyna því hverj­ir um­sækj­end­ur um stöðu út­varps­stjóra yrðu og telja sig þannig ekki þurfa að fara að lög­um.  Rök­in voru þau að með því myndu betri um­sækj­end­ur koma fram.  Ekki veit ég hvað menn hafa fyr­ir sér í því nema það sé slíkt feimn­is­mál að sækja um starfið.
 

Til að reyna að kom­ast upp með þetta hafði ein­hver starfsmaður verið lát­inn breyta per­sónu­vernd­ar­yf­ir­lýs­ingu stofn­un­ar­inn­ar til að þessi leynd­ar­hyggja passaði við hana.  Árvök­ul­ir frétta­menn einkamiðlanna höfðu hins veg­ar rekið aug­un í þetta svo upp komst um svindlið.

En það er ekki bara leynd­ar­hyggj­an í Efsta­leit­inu sem er brot á lög­um held­ur þurfti rík­is­end­ur­skoðandi að benda á hið aug­ljósa, að stofn­un­in hef­ur ekki farið að lög­um og stofnað dótt­ur­fé­lög. Lög frá 2013 með gildis­töku 2018 svo næg­ur var tím­inn.

Á sama tíma og Rík­is­út­varpið verður upp­lýst af leyni­makki um það hver verður næsti út­varps­stjóri er ráðherra rík­is­út­varps­ins að reyna að koma í gegn­um alþingi frum­varpi sem ger­ir ráð fyr­ir því að gera frjálsa fjöl­miðla háða rík­is­sjóði.  Á sama tíma er ekki út­lit fyr­ir að ráðherr­ann ætli sér að breyta fjár­mögn­un RÚV ohf., hvorki er varðar þátt­töku á aug­lýs­inga­markaði né nefskatt­inn sem all­ir neyðast til að greiða.

Það er vel skilj­an­legt að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn skuli emja ör­lítið yfir þess­um mála­til­búnaði ráðherr­ans. Ráðherr­ann veit þó að kveisa Sjálf­stæðis­flokks­ins er ekki merki­legri en ung­barns rétt eft­ir að hafa tæmt pel­ann, næg­ir að setja hann á öxl­ina og klappa mjúk­lega þar til rop­inn kem­ur, þá lag­ast allt.

Ég spái því að þótt málið klárist ekki fyr­ir jól verði fyr­ir þing­frest­un í vor búið að bæta fjöl­miðlum á rík­is­spen­ann.

Rík­is­út­varp í þeirri mynd sem það er í dag er tíma­skekkja og óþarft.  Tækn­in hef­ur gert það að verk­um að flutn­ing­ur efn­is er orðinn al­menn­ur, mikið magn afþrey­ing­ar er í boði, menn­ing­ar- og fræðsluþætt­ir o.s.frv.  Örygg­is­hlut­verkið á ekki leng­ur við, til þess hafa menn aðra tækni, s.s. í gegn­um farsíma eða ljós­leiðara.  Sjó­menn vafra um á net­inu og eru flest­ir í stöðugu sam­bandi heim.

Þá spyr ein­hver: Hvað með menn­ing­una?  Hún má ekki vera upp á Rík­is­út­varpið kom­in.  Hún þarf að geta náð til sem flestra á sem fjöl­breytt­ast­an hátt.  Leggja ætti Rík­is­út­varpið niður í nú­ver­andi mynd og nota t.d. tvo millj­arða af þess­um fimm sem það kost­ar að reka RÚV í ís­lenska menn­ingu.  Stofna mætti sjóð sem styrkti gerð efn­is um menn­ingu, list­ir, o.þ.h.

Einka­rekna fjöl­miðla get­um við eflt með því að skatt­greiðend­ur velji á sínu skatt­fram­tali hvaða fjöl­miðill á að fá þeirra „út­varps­gjald“.  Það er ein­falt og mögu­lega sann­gjarnt. 

 

Höf­und­ur: Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Suðvest­ur­kjör­dæm­is og vara­formaður Miðflokks­ins.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 4. desember, 2019