Hlustum og lærum

Stefnan í málefnum hælisleitenda hér á landi einkennist af örri fjölgun hælisleitenda og samsvarandi aukningu útgjalda hins opinbera til málaflokksins. Stjórnsýslan ræður ekki við verkefnið. Útgjöldin fara síhækkandi og er þó stór hluti þeirra ógagnsær í meira lagi. Þessi málefni ber hátt meðal nágranna okkar á Norðurlöndum. Við hljótum að fylgjast með þróuninni þar og læra af reynslu þeirra.

Krafa um aðlögun að samfélaginu

Forsætisráðherra Dana, Mette Fredriksen, formaður sósíaldemókrataflokksins, systurflokks Samfylkingar, sagði á síðasta þingdegi fyrir sumarleyfi, 22. júní sl., að ekki ætti að taka við fleiri flóttamönnum en unnt væri að aðlaga þjóðfélaginu. Hún bætti við að gera skyldi kröfur til þeirra sem kæmu til Danmerkur, enda fylgdust að réttindi og skyldur. Hún sagði við þetta tækifæri að hvort sem fólk ætti rætur í Danmörku eða utan hennar væri það jafnrétti karla og kvenna, stuðningur við lýðræðisleg gildi og danskt samfélag, sem byndi fólk saman þar í landi. Þessi gildi eiga við á Íslandi. Þá kröfu verður að gera til þeirra sem veitt er alþjóðleg vernd hér á landi að þeir styðji þessi sjónarmið í orði og verki.

Mistök fortíðar

Í stefnuræðu sinni við setningu danska þjóðþingsins 6. október sl. kom forsætisráðherrann víða við. Ummæli hennar um málefni hælisleitenda hljóta að vekja mikla athygli hér á landi. Hún sagði útlendingastefnu fortíðar mistök. Ríkisstjórnin myndi halda áfram strangri stefnu, en meira þyrfti að koma til. Evrópska hælisleitendakerfið væri í raun hrunið. Verum hreinskilin, sagði hún, möguleikinn á hæli er oft kominn undir því að flóttamaður greiði fólkssmyglara og vilji hætta lífinu í yfirfylltum gúmmíbát. Miðjarðarhafið er orðið kirkjugarður. Enn fremur sagði danski forsætisráðherrann: Enginn flýr að gamni sínu. Eins og komið er bregðumst við bæði þeim sem flýja með milligöngu smyglara og þeim sem eftir sitja og hafa mesta þörf fyrir hjálp. Aðstoð Dana hljóti að beinast að því fólki. Við viljum meðhöndla hælisumsóknir utan Danmerkur – í þriðju löndum, sem veitt geta öryggi þeim sem þurfa á vernd að halda. Hún bætti við, að frá sínum bæjardyrum væri þetta eina raunhæfa framtíðarlausnin. Forsætisráðherra lauk þessum kafla ræðu sinnar með því að segja: Látum verkin tala. Ríkisstjórnin mun á hinu nýja þingi leggja fram lagafrumvarp, sem geri kleift að flytja hælisleitendur til landa utan Evrópu og búa Danmörku undir nýtt hælisleitendakerfi. Þetta er er verkefni sem ég vona að við getum sameinast um, sagði forsætisráðherra.

Umræðan hér í ólíkum farvegi

Ræða danska forsætisráðherrans ber því glöggt vitni í hvílíkar ógöngur Danir hafa ratað í málefnum hælisleitenda. Umræður hér á landi falla í ólíkan farveg og er stýrt af aðilum, sem virðast leggja í vana sinn að kasta misjöfnum orðum að fólki, sem ekki er sama sinnis. Hvaða orð verða danska forsætisráðherranum valin fyrir skoðanir sínar? Hvað segja skoðanasystkin hennar á vinstri væng íslenskra stjórnmála? Hvað segja þeir hinir sömu um ummæli sænska forsætisráðherrans Stefáns Löfvéns fyrr á þessu ári um að aukna glæpatíðni í Svíþjóð mætti rekja til mistaka hinnar pólitísku stefnu í útlendingamálum? Hinn íslenski systurflokkur sósíaldemókrata virðist hafa glatað tengslum við uppruna sinn. Hann skilur ekki eins og gömlu kratarnir að velferðarkerfið brotnar niður, ef það er ekki reist á borgaralegum gildum. Sjálfstæðisflokkurinn beygir sig undir stefnu samstarfsflokka í málefnum hælisleitenda, í stað þess að tryggja örugg landamæri með markvissri löggæslu.

Við verðum að hlusta og læra af reynslu nágrannaþjóða og afstýra miklum fyrirsjáanlegum vanda. 

 

Höfundur: Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 17. október, 2020