Hrunið hælisleitendakerfi

Ástandið í Úkraínu vegna innrásar Rússa dregur upp á yfirborðið þá stöðu sem verið hefur viðvarandi um langa hríð hvað málefni hælisleitenda varðar og þann ólestur sem kerfið er komið í hér á landi og raunar um Evrópu alla.

Fjármálaráðherra svaraði fyrirspurn formanns Miðflokksins á Alþingi í gær um málefni hælisleitenda á þann veg að það væri óviðunandi að á Íslandi væru enn nokkur hundruð manns sem hefðu þegar fengið efnislega meðferð á umsókn sinni um vernd sem endað hefði með neikvæðu svari, fólk sem ekki á rétt á vernd á Íslandi. Þessi nokkur hundruð manns neiti að yfirgefa landið og ekki sé hægt að vísa þeim úr landi með aðstoð lögreglu því þau neiti að fara í sýnatöku vegna Covid-19, sem er í dag forsenda þess að hægt sé að senda viðkomandi til þess Evrópuríkis þar sem þau eru þegar komin með alþjóðlega vernd. Fjármálaráðherra upplýsti að bara það að halda þessum fjölda fólks uppi við þessar aðstæður kostaði ríkissjóð rúman milljarð á ári. Meira en þúsund milljónir til fólks sem á ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi.

En hvað hefur ríkisstjórnin gert í þessu?

Dómsmálaráðherra boðar nú þriðju atrennu að lagabreytingu sem breytir regluverkinu þannig að þeir sem þegar eru komnir með alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki fái ekki líka vernd á Íslandi og skuli hverfa aftur til þess ríkis þar sem þeir eiga verndina. Málið hefur enn ekki verið lagt fram á þessu þingi og verður að leiða líkur að því að ósætti á stjórnarheimilinu skýri hina síðbúnu framlagningu.

Á meðan ráðherra Sjálfstæðisflokksins boðar þriðju atlöguna að breytingum á útlendingalögum til að gera kerfið skilvirkara og mæta augljósum ágöllum eins og þeim sem hér var lýst að ofan bíður ráðherra VG ekki boðanna og leggur fram frumvarp sem er til þess fallið að fjölga umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi. Frumvarp frá liðnu kjörtímabili um að samræma móttöku einstaklinga með vernd sem tryggir betri þjónustu hér til handa hælisleitendum sem fá vernd en í öðrum löndum sem við berum okkur saman við.

Þessi þrýstingur á kerfið, sem dómsmálaráðherra lýsti í gær með þeim hætti að í síðustu viku hefðu verið tekin á leigu 200 hótelherbergi og fram undan væri að leigja önnur 200 á næstu dögum, gerir það að verkum að verulega þrengir að getu okkar Íslendinga til að taka á móti og styðja við þá sem sannanlega eiga rétt á vernd og þurfa nauðsynlega á þjónustu okkar að halda nú um stundir.

Stjórnvöld verða að nálgast þessi mál af raunsæi og skynsemi. Við getum ekki tekið á móti öllum sem þurfa vernd í heiminum, en við viljum gera vel við þá sem eiga rétt á vernd á Íslandi. Misnotkun á verndarkerfinu bitnar helst á þeim sem mesta þörf hafa fyrir verndina og við viljum aðstoða til betra og öruggara lífs.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 8. mars. 2022.