Hvernig væri að hlusta á lögregluna?

Margoft á undanförnum árum hefur lögreglan varað við uppgangi skipulagðra glæpasamtaka. Ísland hefur verið tiltölulega friðsælt og öruggt land og þannig viljum við að það verði áfram.

Í vikunni ræddi ég á Alþingi við ráðherra lögreglumála um fréttir af voðaatburði hér í borg og þær áhyggjur sem finna má í samfélaginu af þróuninni. Fólki bregður eðlilega við þegar svo alvarlegir atburðir eiga sér stað og undrast þá hörku sem virðist viðgangast í undirheimunum.

Staðreyndin er reyndar sú að þetta ætti ekki að koma á óvart. Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur margsinnis bent stjórnvöldum á aukna hættu á uppgangi skipulagðra glæpahópa, oft með erlendum tengingum, t.d. í skýrslum 2017 og aftur 2019. Greinarhöfundur hefur ítrekað, úr ræðustól Alþingis, bent á þessar alvarlegu viðvaranir innan úr lögreglunni og vorið 2018 efndi ég til sérstakrar umræðu á Alþingi um málefnið.

Í síðustu skýrslu greiningardeildar 2019 er áhættan af skipulagðri glæpastarfsemi metin gífurleg, sem er hæsta stig áhættu. Þar er berum orðum sagt að geta íslensku lögreglunnar til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi teljist lítil. Veikleikar sem raktir eru í skýrslunni eru taldir til þess fallnir að auka líkur á að magna neikvæðar afleiðingar af þessari brotastarfsemi.

Vísbendingarnar hafa verið skýrar og lögreglan hefur sjálf ítrekað varað við hættunni. Í skýrslum greiningardeildarinnar er málið talið varða þjóðaröryggi.

Þessi staða er með öllu óviðunandi. Ég tel að ekki hafi verið brugðist nægilega við ítrekuðum ábendingum embættis ríkislögreglustjóra. Skipulögðum glæpahópum virðist vaxa ásmegin. Af þessu tilefni gætu einhverjir spurt: Hvað á að gera?

Hvernig væri að hlusta á lögregluna?  

Efla þarf lögregluna eins og margoft hefur verið kallað eftir. Auka þarf rannsóknarheimildir lögreglu. Bent hefur verið á að rannsóknarúrræði eru ekki fullnægjandi hérlendis miðað við önnur lönd. Gæslu á landamærum þarf að stórefla. Markvissar úrbætur eru nauðsynlegar til að lögreglan geti tekist á við þessa hættulegu starfsemi og með því stuðlað að auknu öryggi þjóðarinnar.

 

Höfundur:  Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins og fyrrum lögreglustjóri

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 19. febrúar, 2021