Ísland og Bretland ekki umsóknarríki

Á Íslandi eru enn stjórnmálamenn sem hafa þá undarlegu sýn á framtíð Íslands að best sé að bjúrókrötum í Brussel verði falið ákvörðunarvald í sem flestum málefnum landsins. Þessir sömu stjórnmálamenn vilja helst að lög og reglur Evrópusambandsins (ESB) renni ljúflega í gegnum stjórnkerfið og Alþingi stimpli þegjandi og hljóðalaust það sem þangað ratar. Þessi sýn þessara stjórnmálamanna virðist ekkert breytast þótt augljóst sé að Ísland hefur ekkert í ESB að sækja frekar en bretar sem við illan leik hefur loks tekist að segja sig frá valdaleysinu í Brussel. 

Þeir eru líka til á Íslandi sem neita að horfast í augu við það að í ár eru 5 ár síðan slitið var viðræðum við ESB um aðild landsins að bandalaginu. Það var gert með bréfi þar sem þetta var tilkynnt alveg eins og þegar sótt var um með bréfi. Flestir þessara aðila sem berja hausnum við steininn eru fyrst og fremst ósáttir við að ekki var slitið eins og þeir vildu að það yrði gert. Á það skal minnt að boðið var upp á það 2015 en þá treystu félagar þeirra sér ekki til þess. En þessu er lokið.

Í dag byrjar þingmannaráðstefna um sameiginlega utanríkis- og öryggisstefnu Evrópusambandsins. Ráðstefnan fer að þessu sinni fram í Zagreb í Króatíu þar sem króatar eru í forystuhlutverki í ESB. Þátttakendur í ráðstefnunni koma frá ríkjum Evrópusambandsins, umsóknarríkjum og samstarfsríkum ESB og sækja fulltrúar Íslands ráðstefnuna sem samstarfsríki ESB.

Fyrir þá sem annaðhvort halda í vonina um að afhenda brusselskum bjúrókrötum lyklana að Íslandi eða þá sem neita sannleikanum er rétt að benda á þátttökulistann fyrir ráðstefnuna í Zagreb.

Þátttakendur eru flokkaðir í nokkra flokka og eru aðildarríkin saman í flokki (Member states). Síðan eru það áheyrnarríki (Observers) en þar eru Ísland, Noregur og Bretland saman. Þá koma umsóknarríki (Application countries) en þau eru Albanía, Norður Makedónía og Tyrkir en Tyrkir hafa haft stöðu umsóknarríkis síðan 1999 en viðræður hófust 2005. 

Ísland er sem sagt í hópi með Noregi og Bretlandi og undarlegt ef einhver heldur því fram að Noregur hvað þá Bretland sé í umsóknarferli. Einhver ætti þá að láta Boris vin okkar vita. Nýlega sást á dagskrá Alþingis þingmál er varðaði meinta stöðu Íslands sem umsóknarríkis. Annaðhvort var málið lagt fram af misskilningi, þekkingarleysi eða til þess eins að reyna að ná athygli. Ég kýs að veðja á misskilning því hitt væri afar óviðeigandi.

Það sem mestu skiptir er að staða Íslands er alveg skýr. Við erum í hópi með Bretlandi og Noregi en hvorugt ríkið er umsóknarríki eða á einhvers konar viðræðum um inngöngu í Evrópusambandið. Ísland er ekki á leið í Evrópusambandið, horfist í augu við það.

 

Höfundur: Gunnar Bragi SVeinsson, þingmaður Miðflokksins.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2020.