Íslandsbanki til almennings

Um langt skeið hefur verið uppi ágreiningur meðal stjórnmálamanna um hvað eigi að gera við hlut ríkissjóðs í íslenska bankakerfinu. Nú hefur Miðflokkurinn ákveðið að höggva á hnútinn og gefa þjóðinni tækifæri til að taka þátt í endurreisn fjármálakerfisins og fá um leið beina hlutdeild í því. Það verður gert með því að þriðjungi hlutafjár í Íslandsbanka verður deilt jafnt á alla íslenska ríkisborgara fyrir árslok 2021. Heimilt verður að selja bréfin eftir lok árs 2023 en bankinn er nú þegar skráður í Kauphöll Íslands og því fær almenningur skráð hlutabréf.

Miðað við núverandi markaðsvirði væri hlutur hvers og eins í Íslandsbanka nálægt 250.000 krónum og hlutur fjögurra manna fjölskyldu næmi því um einni milljón króna. Sá hlutur verður skattfrjáls, enda þegar eign landsmanna. Aðgerðin er sanngjörn vegna þess að bankinn er nú þegar sameign þjóðarinnar og var tekin inn í ríkissjóð í þeim aðgerðum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar stóð fyrir undir merkjum fjármálastöðugleika árið 2015. Í þá aðgerð var ráðist til þess að losa þjóðina úr fjármagnshöftum og gera upp eftirköst fjármálahrunsins sem hafði veruleg áhrif á heimilin í landinu. Íslandsbanki var ekki afhentur með glöðu geði af þeim vogunarsjóðum sem áttu hann en aðferðafræði aðgerðanna, undir merkjum fjármálastöðugleika, knúði sjóðina til að afhenda bankann. Sú aðgerð naut stuðnings alþjóðagjaldeyrissjóðsins og var viðurkennd af OECD. Íslandsbanki varð þar með eign ríkissjóðs og nú telur Miðflokkurinn eðlilegt að landsmenn fái hlutdeild í bankanum.

Þessi aðgerð er hluti af stefnu Miðflokksins um endurskipulagningu fjármálakerfisins sem sett var fram 2017. Í samræmi við þá stefnu mun Landsbankinn gegna mikilvægu hlutverki við að ýta undir heilbrigða samkeppni og bæta kjör á fjármálamarkaði. Þannig verður unnið að því að fjármálakerfið sinni hlutverki sínu fyrir alla landsmenn og fyrirtæki í stað þess að hámarka hagnað vogunarsjóða. Það er mat okkar miðflokksmanna að þessi afhending á þriðjungs hlut í Íslandsbanka sé í senn efnahagslega hagkvæm um leið og hún eykur sparnaðarmöguleika og kaupgetu alls almennings.

 

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir skipar 2. sætið á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi (kraganum).

www.facebook.com/nannaxm/

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 21. september, 2021