Kostnaður vegna losunarheimilda Kyoto samningsins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tók til máls á Alþingi í dag undir liðnum óundibúnar fyrirspurnir og beindi fyrirspurn sinni að forsætisráðherra um áhrifin af Kyoto-bókuninni. 

Sagði Sigmundur að síðustu misseri hafi farið sögur af því að íslendingar verði neyddir til að borga milljarða í skaðabætur fyrir að hafa ekki staðið sig nógu vel við að uppfylla kvaðir Kyoto-samningsins og hafi það komið m.a. fram í viðtali við umhverfisráðherra í Fréttablaðinu fyrir nokkrum dögum.  Þá benti Sigmundur á að í Fréttablaðinu hafi Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs, nýlega bent á að hægt sé að leysa þetta með 187 milljónum eða svo, en það þurfi að gerast fljótt því að fresturinn renni út um áramót og spurði Sigmundur Davíð hvort ríkisstjórnin ætlaði sér að nota þetta tækifæri.

Ræða Sigmundar Davíðs var eftirfarandi:

"Forseti. Síðustu misseri höfum við heyrt margar sögur af því, sem er stundum kallaðar hræðsluáróður, held ég, eins og það hefur verið sett fram, að Íslendingar verði neyddir til að borga milljarða í skaðabætur fyrir að hafa ekki staðið sig nógu vel við að uppfylla kvaðir Kyoto-samningsins. Hafa hæstv. ráðherrar Vinstri grænna verið duglegir að minna okkur á þetta. Nú síðast fyrir fáum dögum var sagt frá því í Fréttablaðinu, í viðtali við hæstv. umhverfisráðherra, að þessi kostnaður myndi hlaupa á milljörðum króna vegna þess að við höfum ekki staðið okkur nógu vel. Skilaboðin eru alltaf þau að það þurfi að grípa til harðra aðgerða til þess að sleppa við slíkar sektir og þá væntanlega draga úr framleiðslu og efnahagsumsvifum hér á Íslandi.

En nú hefur formaður loftslagssjóðs upplýst um það í Fréttablaðinu að hægt sé að kaupa svokallaðar CER-einingar til að leysa þetta mál og það muni ekki kosta nema um 187 milljónir á núverandi gengi eða verði þessar einingar.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Mun ráðherrann ekki tryggja að þetta mál verði leyst annaðhvort með slíkum hætti og gera það í samráði við hæstv. fjármála- og umhverfisráðherra, eða einfaldlega segja okkur frá þessu kerfi sem enginn virðist skilja eða gera sér grein fyrir hvernig virkar, því að við vitum ekki hvað verður um þetta fjármagn? Ég hef alla vega ekki heyrt skýringar á því frá þeim ráðherrum sem talað hafa mest um þetta. Það er margt undarlegt í þessu öllu. En þarna er þá lausn sem er mun ódýrari en gefið hefur verið til kynna með þeim hræðsluáróðri sem við höfum búið við hérna í nokkur misseri."

Hér er seinni ræða Sigmundar eftir svar forsætisráðherra:

"Herra forseti. Að sjálfsögðu getur Ísland lagt sitt af mörkum og hefur heldur betur gert það í umhverfismálum, ekki síst með því að framleiða umhverfisvænasta ál í heimi. Við þurfum að gera þetta á okkar forsendum því að það hefur reynst best, í stað þess að vera sektuð fyrir að hafa byggt upp hér umhverfisvænan iðnað. Ef hann hefði byggst upp annars staðar, í ríkjum sem lúta ekki sömu skilyrðum, hefði hann mengað miklu meira.

En nú velti ég því fyrir mér hvort hæstv. forsætisráðherra geti svarað spurningunni í stað þess að fara út í almennar vangaveltur um umhverfismál og seinni tíma samninga. Hér er ég að spyrja um áhrifin af Kyoto-bókuninni og þær fullyrðingar sem við höfum heyrt ítrekað, að Ísland muni þurfa að borga milljarða af þeirri ástæðu. En svo kemur hér í Fréttablaðinu Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs, og bendir á að hægt sé að leysa þetta með 187 milljónum eða svo, en það þurfi að gerast fljótt því að fresturinn renni út um áramót.

Því spyr ég einfaldlega: Mun ríkisstjórnin nota þetta tækifæri? Því að mér heyrist að hæstv. ráðherra geri ekki ráð fyrir því að hverfa alveg frá þessu fyrirkomulagi."

Upptöku úr þingsal og svar forsætisráðherra má sjá hér