Þróun leigubílaþjónustu

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, ræddi um þróun leigubílaþjónustu í störfum þingsins í dag

"Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á frétt úr viðskiptablaði Morgunblaðsins, á mbl.is, þann 19. febrúar. Þar er sagt frá hæstaréttardómi í Bretlandi, þar sem leigubílaþjónusta Uber tapaði, og dómsorðið er þannig að bílstjórar sem keyra á vegum leigubílaþjónustunnar séu starfsmenn fyrirtækisins og hafi þar með rétt á lágmarkslaunum, hátíðarkaupi og kaffihléum. Þetta er að lokinni fimm ára baráttu þessara manna fyrir réttlæti í þessu máli og það kemur fram í greininni að í sjálfu sér geti þetta markaði endalok Uber-þjónustunnar í Bretlandi, þ.e. ef Uber kemst ekki lengur upp með að halda þetta fólk eins og þræla og sleppa við að borga öll launatengd gjöld og yfirvinnu, og hvað þetta heitir, sé grundvöllur leigubílaþjónustu Uber í Bretlandi brostinn.

Þetta segi ég vegna þess, herra forseti, að hér í þingsal hafa heyrst raddir um að þetta sé akkúrat kerfið sem við eigum að taka upp á Íslandi, að við eigum að níðast á fólki og gera það þrælum og borga síðan toll einhverjum feitum Uber-karli í útlöndum sem situr þar á sundlaugarbakka.

Ég verð að mótmæla þessu, herra forseti. Þetta er náttúrlega afturhvarf til svona námavinnslu og annars þrælahalds sem haft var uppi við í Evrópu og víðar fyrir 200–300 árum. En einnig er furðulegt að einmitt núna hefur hæstv. samgönguráðherra lagt fram frumvarp, sem er sem betur fer í nefnd og verður það vonandi sem lengst, sem einmitt á að gera það kleift að starfsemi eins og þessi nái fótfestu á Íslandi og ryðji úr vegi fólki sem hefur allt sitt á hreinu, öll öryggisatriði, og borgar sína skatta. Nú á að fara að hleypa ófögnuði eins og þessum lausum á Íslandi."

Upptöku af ræðu Þorsteins í þingsal má sjá hér