Léttari fasteignakaup

Miðflokkurinn kynnti í liðinni viku í 10 liðum nýja nálgun í íslensku stjórnmálum. Eitt af því sem var kynnt eru ný lög um eignarréttarstefnu í húsnæðismálum þar sem fólki gefst m.a. kostur á að ráðstafa 3,5% af 15,5% lífeyrisiðgjaldi sínu í sjóð til fasteignakaupa. Greiðslur í sjóðinn má veðsetja til jafns við lengd fasteignalána. Þannig geta kaupendur fasteigna reitt fram eiginfjárframlag fyrr og þar með aukið möguleika sína til að eignast fasteign.

Þeir sem eiga fasteign geta nýtt 3,5% lífeyrisiðgjaldsins til lækkunar núverandi fasteignaláns. Þessi leið bætist við þá nýtingu á viðbótarlífeyrissparnaði sem þegar er möguleg. Til viðbótar við þessa aðgerð er í stefnu Miðflokksins afnám stimpilgjalda, aukið lóðaframboð, almenn hlutdeildarlán og fleiri liðir sem allir spila saman til að gefa fleirum tækifæri á að eignast eigið húsnæði.

Fyrir skemmstu, þegar lágmarksiðgjald hækkaði úr 12% í 15,5%, kom eftirfarandi fram í umsögn frá Almenna lífeyrissjóðnum: „Ekkert hefur komið fram um þörfina fyrir einstaklinga að lögfesta þessa hækkun. Með útreikningum má sýna fram á að í mörgum tilvikum getur fyrirhuguð hækkun iðgjalda leitt til þess að eftirlaun í framtíðinni verði rífleg“.

Það er því eðlilegt að við fáum að ráðstafa þessum sparnaði svo hann nýtist okkur sem best. Við greiðum í lífeyrissjóð sem ávaxtar fjármunina en við förum jafnvel í sama lífeyrissjóð til að taka sömu fjármuni að láni til að eignast þak yfir höfuðið. Er ekki eitthvað bogið við þetta?

Tillaga Miðflokksins snýst um að þú getir veðsett þín eigin iðgjöld til að lækka útborgunina og auka möguleika á fasteignakaupum. Gefum okkur dæmi um par sem er að fara að kaupa íbúð. Þau eru með samtals 800 þús. krónur í laun á mánuði. Parið nýtir 3,5% af mótframlagi frá vinnuveitanda sem útborgun í íbúðina. Gefum okkur að parið taki 25 ára blandað lán og þá nýtist þessi leið sem ca 3 milljónir upp í útborgun fasteignarinnar.

Þetta hefur ekki áhrif á ráðstöfunartekjur fólks þar sem greiðslan kemur frá skyldubundnu lífeyrisiðgjaldi sem ella færi í tilgreinda séreign eða til réttindaávinnslu í sameign. Með þessari aðferð, sem er að sjálfsögðu valkvæð, jöfnum við tækifæri allra til eignamyndunar. Það að geta keypt sér fasteign á ekki að vera bara fyrir þá sem geta fengið aðstoð með útborgun.

Það er ekki ríkið sem er að gefa eða úthluta þessum peningum. Þetta eru peningar sem við söfnum sjálf en fáum loks rétt til að ráðstafa. Rétt sem getur skipt máli og gert eignamyndun í eigin húsnæði mögulega.

Það er sanngjarnt að við fáum að ráðstafa hluta af lífeyrissjóðsiðgjöldum þegar þau eru orðin jafn há og raun ber vitni. Við erum öll saman í þessu samfélagi og með aðgerð eins og þeirri sem ég hef rakið hér að ofan jöfnum við tækifæri fólks til að eignast eigið húsnæði sem og að losna af leigumarkaði. Til þess að við getum tekið stór framfaraskref sem þetta, óska ég eftir stuðningi ykkar með því að merkja X við Miðflokkinn á kjördag. Við gerum það sem við segjumst ætla að gera.

 

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir skipar 2. sætið á lista Miðflokksins í Kraganum

www.facebook.com/nannaxm

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 30. ágúst, 2021