Með galopin augu

Í dag fer fram atkvæðagreiðsla á Alþingi um þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins. Stjórnin og stjórnarsamstaðan virðast vera staðráðin í því að samþykkja þetta regluverk í trássi við vilja meirihluta landsmanna.


Nýtt uppi á borðinu
Mikil umræða fór fram í vor á Alþingi og tókst þingmönnum Miðflokksins að fá málinu frestað fram á haustið. Enginn vafi er á því að það var fallið til þess að auka almennar umræður um málið og draga fram nýjar staðreyndir og sjónarmið. Nú ber svo við að fylgjendur orkupakkans hafa það eitt fram að færa að endurtaka í sífellu að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu. Þeirra vegna er vert að rifja upp hvað hefur breyst í málinu í sumar og hvaða nýjar upplýsingar liggja fyrir sem ekki lágu fyrir í vor.


Einskis nýtir fyrirvarar
Berlega hefur komið í ljós að lagalegir fyrirvarar ríkisstjórnarinnar hafa ekkert þjóðréttarlegt gildi. Varla fyrirfinnst lengur nokkur maður sem gerir tilraun til að halda öðru fram og hefur farið grunsamlega lítið fyrir þeim sem héldu fyrirvaranum á lofti í vor. Þannig hefur andstæðingum málsins tekist að leiða fram þá staðreynd að fyrirvararnir, sem voru forsenda þess að málið rann í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna, hafa ekkert gildi að þjóðarétti.


Lítil þolinmæði fyrir slælegri innleiðingu
Nýleg ákvörðun Evrópusambandsins um að draga Belgíu fyrir Evrópudómstólinn í samningsbrotamáli færir okkur heim sanninn um að við Íslendingar verðum ekki teknir neinum vettlingatökum ef sambandið telur að við höfum ekki innleitt þriðja orkupakkann réttilega.


Fjórði orkupakkinn
Í þriðja lagi hefur fjórði orkupakkinn litið dagsins ljós eftir staðfestingu æðstu stofnana í Evrópusambandinu. Greinilegt er, af fréttum af innihaldi hans, að þar er að finna fjölmörg álitaefni, sem eru alls órædd í tengslum við það sem liggur fyrir að greiða atkvæði um á Alþingi. Augljóst er að brýn þörf er að ræða þessi mál saman enda er hér um að ræða samfellu í löggjöf á sviði raforkumála á öllu Evrópusvæðinu.


Ósammála óbreyttri tillögu
Fram kom tillaga frá einum stjórnarþingmanni í sumar þess efnis að setja inn ákvæði samhliða orkupakkanum um þjóðaratkvæði komi til þess að ósk berist um tengingu með sæstreng hingað til lands. Undir þessa tillögu þingmannsins hafa nokkrir aðrir stjórnarþingmenn tekið. Er varla við því að búast að þessir þingmenn geti samþykkt orkupakkamálið óbreytt.


Ekki nægileg lagastoð fyrir reglugerð ráðherra
Væntanleg er reglugerð iðnaðarráðherra sem ætlað er að innleiða hina mjög svo umdeildu reglugerð EB 713/2009, þar sem Orkustofnun Evrópu (ACER) er falið víðtækt valdsvið á sviði raforkumála. Ætlan ráðherra er að styðja útgáfu reglugerðarinnar við 45. grein raforkulaga sem heimilar ráðherra að gefa út reglugerðir um framkvæmd raforkulaga! Fræðimenn hefur greint á um hvort einstök ákvæði ofangreindrar reglugerðar (EB 713/2009) stangist á við ákvæði stjórnarskrár, sem feli í sér framsal á ríkisvaldi til evrópskrar stofnunar. Af hálfu Miðflokksins hefur verið bent á að innleiðing svo víðtækrar löggjafar Evrópusambandsins, með reglugerð ráðherra sem styðst ekki við merkilegri lagaákvæði en hér var nefnt, geti engan veginn staðist.

Engar hamfarir
Formaður, varaformaður og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa, á síðustu dögum, látið uppi þá skoðun sína að þeir telji engin vandkvæði almennt á að nýta rétt okkar skv. 102. gr. samningsins til að fara með mál fyrir sameiginlegu EES-nefndina og óska undanþágu, en sjá þó ekki þörfina á slíku í þessu máli. Þannig hafa þeir skilið utanríkisráðherra einan eftir með hamfaralýsingar sínar um viðbrögð Evrópusambandsins við slíkri beiðni.


Hafa ekki getað útskýrt þörfina
Fyrir utan ofangreinda ágalla hyggjast fylgismenn orkupakkans innleiða regluverkið þrátt fyrir augljósa andstöðu meirihluta landsmanna. Ríkisstjórninni er fyrirmunað að útskýra þörfina á að nauðsynlegt sé að samþykkja þriðju orkutilskipunina. Allt lítur út fyrir að þingmeirihluti ætli að samþykkja tillöguna. Þeir þingmenn gera það með galopin augu.

 

Karl Gauti Hjaltason, alþingismaður Miðflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. september, 2019.