Sívaxandi áhætta af skipulögðum glæpahópum

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, ræddi um hina sívaxandi áhættu af skipulögðum glæpahópun hér á landi í störfum þingsins á Alþingi í dag.

"Herra forseti. Frá því að greiningardeild ríkislögreglustjóra hóf starfsemi 2007 hefur deildin reglulega lagt mat á umfang skipulagðrar glæpastarfsemi í landinu. Hin seinni ár hafa skýrslurnar verið opnar almenningi. Tvær síðustu skýrslurnar eru frá 2017 og sú nýjasta frá 2019. Þar er varað við sívaxandi áhættu af skipulögðum glæpahópum hér á landi og í skýrslunni 2019 var áhættan metin gífurleg, sem er hæsta stig áhættu. Þróunin á ekki að koma á óvart. Lögreglan hefur lengi varað við henni. Skipulögð glæpastarfsemi lýsir sér, samkvæmt skýrslu deildarinnar frá 2019, helst í brotum eins og dreifingu, framleiðslu og innflutningi á fíkniefnum, sem hefur í för með sér margvísleg neikvæð áhrif á samfélagið, t.d. ofbeldi, nauðung og misbeitingu af ýmsum toga. Skipulögð glæpastarfsemi er fjölþjóðleg í eðli sínu og teygir sig yfir landamæri. Í skýrslunni segir að svo sé því einnig farið á Íslandi. Þá segir að rannsóknir lögreglu leiði í ljós skipulagða misnotkun erlendra afbrotamanna og -hópa á opinberum þjónustukerfum á Íslandi og upplýsingar bendir til þess að brotalamir sé að finna í kerfum hins opinbera. Síðan segir að fjöldi og umsvif, stærð og styrkur skipulagðra hópa afbrotamanna á Íslandi fari vaxandi. Svo segir áfram: „Hóparnir halda uppi skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi sem í senn er víðfeðm og ábatasöm.“ Loks segir að ljóst sé að samfélagi á Íslandi stafi mikil ógn af starfsemi skipulagðra glæpahópa.

Miðflokkurinn hefur bent á þessa þróun í mörg ár og efndi ég til sérstakrar umræðu um málið á Alþingi snemma árs 2018.

Herra forseti. Efla þarf lögregluna, auka rannsóknarheimildir og styrkja rannsóknarúrræði og renna styrkari stoðum undir landamæragæslu og -eftirlit.

Við stöndum á nokkrum tímamótum í þessum alvarlegu málum. Því tel ég að nauðsynlegt sé að taka mark á ábendingum lögreglunnar og hlusta á lögregluna."

Upptöku af ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér