Öryggi í öndvegi

Flest­ir þeirra sem hafa notið þjón­ustu leigu­bif­reiða hér á landi vita að þeir geta treyst bæði bíl­stjór­un­um og bif­reiðum þeirra.  Ef eitt­hvað kem­ur upp á geta þeir leitað til stöðvar­inn­ar og borið upp er­indi sín eða kvart­an­ir, t.d. ef þeir eru að leita að týnd­um mun­um.  For­eldr­ar geta sent barnapí­una heim til sín í leigu­bif­reið að nóttu til án þess að hafa áhyggj­ur og það sama á við þegar aldrað gam­al­menni þarf milli bæj­ar­hluta.
 

Nú ligg­ur fyr­ir Alþingi frum­varp sem mun breyta starfsaðstæðum leigu­bif­reiðastjóra veru­lega.  Fella skal niður skyldu bíl­stjóra til að til­heyra leigu­bif­reiðastöð, fjölda­tak­mark­an­ir felld­ar brott og aðgengi að leyf­um gef­in að mestu frjáls að því marki að ein­ung­is þurfi til­skil­in öku­rétt­indi.  Kraf­an er sögð vera til kom­in vegna skuld­bind­inga okk­ar skv. EES-samn­ingn­um um að fjar­lægja þurfi all­ar aðgangs­hindr­an­ir.  Þess­ar breyt­ing­ar standa fyr­ir dyr­um, þrátt fyr­ir að ís­lenska ríkið hafi hvorki verið dæmt brot­legt í þess­um efn­um né fengið form­leg­ar at­huga­semd­ir eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA (ESA).  Eins og stund­um áður eig­um við að vera fyr­ir­mynd annarra hvað varðar inn­leiðingu reglna EES-samn­ings­ins.

Nú gæti þetta litið út fyr­ir að vera hið besta mál í hug­um margra, að leigu­bif­reiðum fjölgi á mestu anna­tím­um, en hverju yrði í staðinn fórnað? Reynsla Finna af breyt­ing­unni er að þar versnaði þjón­ust­an, verð hækkaði og traust á þjón­ust­unni minnkaði og er þar nú unnið að því að snúa til baka til fyrra horfs og sníða af helstu van­kant­ana.  Í Dan­mörku er staðan sú að þeir fengu und­anþágu í mik­il­væg­um atriðum svo sem stöðvaskyld­unni og fjölda­tak­mörk­un­um að miklu leyti.  Þar í landi er einnig gerð krafa um dönskukunn­áttu bíl­stjór­anna.  En hér á landi ligg­ur á að ana út í foraðið, þrátt fyr­ir enga knýj­andi þörf þar á og með slæma reynslu ná­granna okk­ar í fartesk­inu.

Leigu­bif­reiðastöðvarn­ar hafa veitt bíl­stjór­um nauðsyn­legt aðhald í mörgu til­liti og komið fram út á við gagn­vart viðskipta­vin­um.  Hér hafa nýliðar í stétt­inni hafið störf með því að aka til reynslu í nokk­ur ár og hef­ur það oft orðið til þess að þeim sem ekki stand­ast kröf­ur er vikið úr stétt­inni eða þeir sem ekki finna sig hætta sjálf­krafa.  Bíl­stjór­ar á stöðvun­um hafa um ára­bil átt mikið og gott sam­starf við lög­reglu með að aðstoða og upp­lýsa bæði af­brot og hjálpa til við t.d. leit að fólki.  Þar skipt­ir miklu að stöðvarn­ar hafa, hver um sig, yf­ir­sýn yfir sína bíl­stjóra.

Málið er mik­il­vægt fyr­ir stóra starfs­stétt, sem þarna get­ur bú­ist við að öll­um starfsaðstæðum henn­ar sé kastað upp í loftið í von um að allt fari það vel.  Miðflokk­ur­inn tel­ur að í þessu máli beri að flýta sér hægt og læra af reynslu ná­grannaþjóða.  Öryggi farþega og um­ferðar verður hér að vera sett ofar öllu öðru.

 

Höf­und­ur:  Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokks­ins í Suður­kjör­dæmi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 21. febrúar, 2020