Óttinn

Eitt það versta sem fyrir eina þjóð getur komið er að kjósa kjarklítið fólk til forystu. Þeir sem gefa kost á sér til forystu fyrir almenning verða að hafa kjark til þess að líta lengra fram á veginn en til næstu skoðanakönnunar. Þeir sem gefa kost á sér til forystu verða að hafa kjark til að standa með þjóð sinni, líka þegar flestir aðrir guggna. Þeir sem gefa kost á sér til forystu verða að hafa kjark til að standa með skoðunum sínum, hafa kjark til að fylgja eftir stefnumálum sínum. Þeir sem gefa kost á sér til forystu verða að hafa kjark til þess að taka ákvarðanir sem til skamms tíma eru ekki til vinsælda fallnar. Þeir sem gefa kost á sér til forystu hafa ekki leyfi til þess að etja saman ólíkum hópum. Þeir hafa ekki rétt á því að tala niður til þeirra sem eru kvíðnir vegna aðstæðna sinna. Kvíði kemur til af mörgum ástæðum, bæði læknisfræðilegum og félagslegum.
 
Sjúkdómurinn kvíði er jafn raunverulegur og krabbamein eða sykursýki. Þeir sem kvíða næsta degi vegna bágs efnahags eða erfiðra félagslegra aðstæðna eiga skilið hjálp okkar hinna ekki köpuryrði. Raunverulegir forystumenn gera ráðstafanir sem slá á kvíðann. Þeir sem gefa kost á sér til forystu hafa ekki leyfi til þess að lítilsvirða þá sem bera reiði í brjósti. Margir Íslendingar eru enn reiðir vegna framgöngu lánastofnana um og eftir hrun og jafnvel síðar. Þessi reiði er skiljanleg, ekki síst vegna þess að ekki fást enn fram upplýsingar varðandi eignir þeirra sem hirtar voru af lánastofnunum.
 
Hvað varð um þær eignir sem t.a.m. Íbúðalánasjóður hirti af almenningi á hrakvirði? Þær upplýsingar liggja ekki á lausu en munu koma fram áður en langt um líður. Hugsanlega mun það sefa reiði einhverra en auka reiði annarra. Þá taka raunverulegir forystumenn ákvarðanir til þess að þeir sem hlunnfarnir voru nái vopnum sínum. Raunverulegir forystumenn ganga fram með ráðstafanir sem eru líklegar til að sefa reiði en auka lífshamingju og farsæld. Raunverulegir forystumenn gjalda ekki varhug við þeim sem hræddir eru. Þvert á móti telja þeir kjark í þá sem óttast og leitast við að skapa umhverfi sem líklegt er til þess að sefa óttann og auka trú á framtíðina. Raunverulegir forystumenn sameina ólíka hópa en sundra ekki með orðum og athöfnum sem vissulega geta skilað þeim sjálfum stundarvinsældum en skaða stórlega til lengri tíma litið.
 
 
Hvað er þá rétt að varast? Rétt er að varast öfl sem naga rætur þjóðfélags okkar, jafnvel með þann vilja einan að vopni að ganga gegn þeim fáu hefðum og reglum sem Íslendingar eiga. Rétt er að varast þá sem ráðast að grunngildum sem búið hafa með þjóðinni um aldir. Rétt er að varast þá sem telja fullveldi þjóðarinnar léttvægt og ganga gegn því. Að síðustu er rétt að varast forystumenn sem eru svo hræddir við skuggann sinn að þeir fara vart fram úr án þess að spegla sig í nýjustu skoðanakönnunum eða vinsældavog.
 
 

Höfundur:  Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins í Rekjavíkurkjördæmi suður. thorsteinns@althingi.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 28. september, 2019