Páskakveðjur frá Stokkhólmi

Páskakveðjur frá Stokkhólmi

 

Kæru samherjar á Íslandi.

 

Ég gekk með í Miðflokkinn í fyrra, vegna þess að ég tel Miðflokkinn hæfastan allra flokka til að þoka málum áleiðis í jákvæða átt fyrir Ísland. Sérstaklega stóð þinghópurinn sig einstaklega vel í baráttunni gegn afsali fullveldis yfir raforku með upptöku raforkulaga ESB fyrir Ísland. Allir sjá núna hversu óheillaríkt það skref var, þegar Rio Tinto fyrirhugar lokun á Íslandi vegna himinhás orkuverðs.

            Tímarnir núna eru erfiðir fyrir marga. Hverjum datt í hug fyrir tveimur mánuðum síðan, að atvinnuleysi í Bandaríkjunum færi yfir 10 miljónir manns, að samgöngur stöðvuðust, að heilsugæsla margra vel stæðra ríkja gæti ekki annað þörf tugum þúsunda veikra, að lyfjaskortur væri orðin regla í stað undantekningar og að yfirmaður Matvælastofnunar SÞ FAO sendi frá sér viðvörun um yfirvofandi matarskort til ríkustu þjóða heims?

            Það síðast nefnda mun vekja margan manninn út um allan heim en án þess að allir hafi gert sér grein fyrir, þá hefur alþjóðavæðingin og stefnan ”just in time” leitt til afvopnunar þjóða og gáleysis sem kostað getur fjölda manns lífið. Neyðarópin berast t.d. frá bændasamtökum Þýzkalands, Frakklands, Bretlands og Svíþjóðar vegna hættu á að ekki verði hægt að bjarga uppskerum vors og sumars vegna skorts á starfsfólki en hundruðum þúsunda verkafólks streyma árlega til landanna til þeirra starfa sem ekki er hægt núna. Kórónuveiran hefur á einu augnabliki afhjúpað Akillisarhæl alþjóðavæðingarinnar, – fjöldi vestrænna ríkja eru ekki lengur sjálfum sér næg um mat eða lyf. 

            Bæði Bretland og Svíþjóð flytja inn um 50% matvæla og er græna Bretland háð 60-80% innflutningi á grænmeti! Sem betur fer er Ísland ekki í svo slæmri stöðu en ríkisstjórnin og öfl fjandsamleg sjálfstæðum landbúnaði vinna leynt og ljóst að aðlögun að rekstri stórbúa að fyrirmynd þeirra sem núna geta ekki gengið vegna skorts á vinnuafli. Miðflokkurinn skilur allra best þýðingu matvælakeðjunnar og matvælaöryggis fyrir landsmenn og hér þarf að spyrna við föstum fótum og breyta löggjöf sem tryggir sjálfbært matvælaöryggi fyrir landsmenn. Það liggur í höndum Miðflokksins að hefja endurreisnarsókn fyrir fullveldi og sjálfstæði Íslands og vísa á bug þeim sem ætla að græða fé á samfloti við Kommúnistaflokk Kína eða alríkisvæðingu ESB. Í matarskorti eru bændur englar alls mannkyns.

            Ástandið í Svíþjóð vegna kórónusmitsins er afar erfitt um þessar mundir og verst í Stokkhólmi, þar sem búið er að koma fyrir frystigámum undir lík við sjúkrahúsin og óeirðalögregla í viðbragðsstöðu ef óróleiki brýst út hjá aðstandendum þeirra sem ekki komast að vegna yfirfullrar gjörgæslu. Ný skýrsla sýnir að smit er á elliheimilum í 75% af lénum Svíþjóðar en a.m.k 40% þeirra sem látast af völdum veirunnar yfir sjötugt koma frá elliheimilum. Lýðheilsan sagði lengi að ekkert væri að óttast einstaklinga sem ekki sýndu nein sjúkdómseinkenni og mættu allir vinna þar til einkenni kæmu í ljós. Veruleikinn er annar og hafa aldraðir sem stærstu loforð voru höfð um að vernda smitast af starfsmönnum sem sýktir voru af veirunni en án einkenna. Þetta er slæmt og slær óhug í Svía.

            Svíar fara eigin leiðir og horfa margir til hryllings bæði innanlands og ekki síst erlendis hvernig útkoman muni verða. Margir eru úti við eins og ekkert hafi í skorist og yfirvöld skylda eigendur veitingahúsa til að tryggja a.m.k. tveggja metra bil á milli gesta. Af myndum sjónvarpsins að dæma t.d. frá Konungstrjágarðinum í Stokkhólmi fylgja margir Svíar ekki þeim fyrirmælum.

            Hér eins og í öðrum ríkjum hefur Seðlabanki og yfirvöld rétt fram peningapoka til útláns en oft eru lánin háð skilmálum sem setja enn frekari fjötur um fót hjá smáfyrirtækjarekendum og sjálfsstarfsmönnum. Ég hvet Miðflokkinn til dáða á sviði matvælaöryggis, lyfja- og heilsuöryggis og fjármálaöryggis fyrir landsmenn.

            Sjálfur er ég og konan mín í sjálfskipaðri einangrun í íbúðinni okkar í Sollentuna, við vinnum eftir getu heiman frá og fáum heimsendan mat. Vorið er í fullum gangi, allt að verða grænt, sólin skín og páskaliljurnar komnar upp svo erfitt er að vera inni allan tímann. 

            Ég sendi ykkur öllum bestu páskakveðjur og enda á orðum Svíakonungs Carl XVI Gustaf í ræðu til þjóðarinnar nýverið:

”Bráðum koma páskar. Og burtséð frá því hvort við höldum upp á þá eða ekki, held ég að við getum öll tekið til okkar boðskap þeirra: Gangan er löng og erfið. En að lokum sigrar ljósið yfir myrkrinu og við eygjum von á ný.”

 

            Gústaf Adolf Skúlason

            Stokkhólmi, Svíþjóð