Rangstæðir ráðherrar

Rangstæðir ráðherrar

Fimmtudagur, 4. júlí 2024
 

Mér var sér­stak­ur vandi á hönd­um þessa vik­una.

Fyrst ætlaði ég að skrifa um mark­mið lofts­lags­ráðherra Sjálf­stæðis­flokks­ins um bann við ný­skrán­ingu bens­ín- og dísel­bíla sem breyt­ist eft­ir því við hvern ráðherr­ann er að tala hverju sinni. Það er auðvitað brekka að fara gegn al­mennri skyn­semi í þágu mark­miða Vinstri grænna.

Svo ætlaði ég að skrifa um úr­kynjuðu skulda­bréf­in sem sitj­andi fjár­málaráðherra var að selja og bera vott um mestu sýnd­ar­mennsku seinni tíma. Líka öllu al­var­legra að það var fjár­málaráðherra Sjálf­stæðis­flokks­ins, Þór­dís Kol­brún, sem hóf þá veg­ferð.

Því næst langaði mig, enn og aft­ur, að rekja tíma­línu við setn­ingu gild­andi út­lend­ingalaga en dóms­málaráðherra Sjálf­stæðis­flokks­ins gerði til­raun til þess að herma þau lög upp á rík­is­stjórn Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar í hlaðvarpi um dag­inn. Ekk­ert er eins fjarri lagi eins og hef­ur þegar komið fram.

En þá að mál­efni vik­unn­ar.

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra til tveggja ára, ræddi við mbl.is á dög­un­um um mik­il­vægi þess að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn drægi úr vinstri áhersl­um sín­um sem hafa verið viðvar­andi á þessu kjör­tíma­bili og því síðasta, í hart­nær sjö ár. Viðtalið var til­komið vegna mæl­ing­ar Maskínu á fylgi flokka, sem ráðherr­an­um þótti ekki koma vel út.

Það sem hins veg­ar vakti at­hygli mína var þegar ráðherr­ann sagði orðrétt: „ Staðan er líka þannig núna að fólk hef­ur vaknað til lífs­ins gagn­vart þeim vanda sem ég benti ít­rekað á sem dóms­málaráðherra um stöðuna í út­lend­inga­mál­um. ” Ráðherr­ann hélt áfram og sagði að eng­inn flokk­ur hefði stutt mál henn­ar í þess­um efn­um en þau hefðu nú náð fram að ganga sem yrði að telj­ast mik­ill ár­ang­ur.

Mig rak í rogastans, minn­ug­ur þess að iðulega hafi þing­flokk­ur Miðflokks­ins staðið blóðugur upp að öxl­um, oft al­einn í umræðu um stöðu þess­ara mála, á þeim tíma sem ráðherr­ann vís­ar til. Og satt best að segja voru ekki sterk­ar minn­ing­ar tengd­ar af­ger­andi fram­göngu ráðherr­ans í út­lend­inga­mál­un­um þegar hún sat í því embætti.

Alþing­isvef­ur­inn seg­ir frá því að ráðherr­ann hafi end­ur­flutt mál fyrri ráðherra tvisvar á tíma sín­um í ráðuneyt­inu, í bæði skipt­in dóu mál­in í nefnd og komust ekki einu sinni til annarr­ar umræðu – slík­ur var þrýst­ing­ur ráðherr­ans á að ná þeim í gegn.

Ein­hverj­ir kynnu við þetta til­efni að rifja upp orð ráðherr­ans í garð sam­flokks­manns þar sem hún sagðist skamm­ast sín fyr­ir að vera í flokki með þing­manni sem lýsti áhyggj­um af þróun mála í út­lend­inga­mál­um.

En það er ánægju­legt að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sé vaknaður til lífs­ins hvað út­lend­inga­mál­in varðar, en við skul­um nálg­ast sög­una eins og hún raun­veru­lega er. Að öðrum kosti verður það ekki bara sjálfs­traustið sem verður farið held­ur trú­verðug­leiki sömu­leiðis.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins.