Rannsóknarskylda ráðherra vegna Covid-19

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma síðastliðinn mánudag spurði ég heilbrigðisráðherra með hvaða hætti hann uppfyllti rannsóknarskyldu sína sem ráðherra þegar kemur að íþyngjandi ákvörðunum vegna Covid-19-faraldursins.

Heldur þótti mér svar ráðherrans vera rýrt í roðinu. Hann vísaði þar einungis í minnisblöð sóttvarnalæknis og sá í öllu falli ekki ástæðu til að nefna fleiri, sé þeim til að dreifa, sem er í raun ótrúlegt miðað við þá hagsmuni sem eru undir.

Það sem var athygliverðast í svari ráðherrans, fyrir utan rýrt svar við spurningunni sem fram var borin, var sú afstaða sem kom fram þegar hann sagði: „Við megum ekki láta reglurnar verða yfirsterkari markmiðunum“!

Þetta er hreinlega ótrúleg afstaða hjá ráðherranum. En þarna er kannski komin skýringin á þeirri ofuráherslu sem lögð var á að bólusetja fimm ára börn, þó að ekkert benti til þess að þeim stafaði hætta af veirunni. Og það þótt sú ákvörðun virðist stangast á við barnalög þar sem segir í fyrstu grein: „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.“ Það virðist sem bólusetning barna hafi ekki verið með þeirra eigin hagsmuni í huga, heldur hagsmuni eldri kynslóða. Réttlætinguna má mögulega finna í afstöðu ráðherrans, þegar hann sagði: „Við megum ekki láta reglurnar verða yfirsterkari markmiðunum“, en ekki er réttlætingin góð, sem er óboðlegt. Allt virðist ganga út á að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, sem hefur verið réttlæting ótalmargra voðaverka og misheppnaðra samfélagstilrauna í gegnum söguna.

Aftur að rannsóknarskyldunni. Ráðherrann lýsti því að minnisblað sóttvarnalæknis hefði útlistað þrjár mögulegar leiðir til að bregðast við: „Óbreytt, herða takmarkanir eða jafnvel í takmarkaðan tíma að fara í lokanir.“ Ráðherrann hafi síðan valið að fara miðleiðina, þ.e. herða sóttvarnaaðgerðir innanlands.

Það er auðvitað alveg galin staða að rökstuðningur fyrir því að fara „miðleiðina“ hafi verið samanburður við þá afleitu tillögu að fara í „mjög strangar takmarkanir og lokanir í stuttan tíma,“ eins og það var kallað í minnisblaðinu. Minnir þetta helst á þegar nokkrum hluta þjóðarinnar þótti Icesave 2-samningurinn bara nokkuð ásættanlegur þar sem hann var bærilegur í samanburði við landráðasamninginn Icesave 1. Þetta er ekki boðleg nálgun þegar svo miklir hagsmunir eru undir

Ráðherrann mun þurfa að standa reikningsskil þessara ákvarðana sinna á síðari stigum, en þangað til verður hann að gera betur hvað varðar að réttlæta og útskýra eigin ákvarðanir.

Bergþór Ólason alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 20. janúar, 2022.