Raunhæfar aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslagsmálin hafa verið fyrirferðarmikil í kosningabaráttunni til þessa og alls konar yfirboð ástunduð og ranghugmyndum dreift. Margir láta nú sem svo að Ísland geti bjargað heiminum með aðgerðum og snúið við losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Þar verður að hafa í huga að Ísland ber ábyrgð á um 0,012% af heildarlosun heimsins. Í orkustefnu fyrir Ísland sem kynnt var á kjörtímabilinu segir að Ísland eigi að vera laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Við í Miðflokknum höfum sagt að það að hætta notkun jarðefnaeldsneytis sé ekki markmið í sjálfu sér heldur á að draga úr losun koltvísýrings og ná þar jafnvægi. Grænt eldsneyti þarf að koma í stað jarðefnaeldsneytis og þar hafa Íslendingar gríðarleg tækifæri. Árið 2018 fluttu Íslendingar inn 680 þúsund tonn af bensíni og olíum fyrir innlendar samgöngur. Fyrir það greiddi þjóðin um 50 milljarða króna. Miðflokkurinn leggur áherslu á skynsama aðgerðaáætlun sem nýtir tækifæri landsins og skapar rétt skilyrði fyrir orkuskipti sem ættu þá að ganga vel fyrir sig.

Tækifæri í grænni orku Íslands

Augljóslega hefur Ísland mikið fram að færa til loftslagsmála með innlenda þekkingu á nýtingu á grænni orku. Innlend orkuframleiðsla mun augljóslega gegna lykilhlutverki í orkuskiptum í samgöngum. Tækniframfarir á sviði vetnis- og metanólframleiðslu geta fært okkur tækifæri til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis bæði hér á landi og erlendis og þannig getum við lagt enn meira af mörkum á heimsvísu. Nýjasta innlegg Íslendinga í loftslagsmálum felst í förgun koltvísýrings með niðurdælingu hans í berglög á vegum fyrirtækisins Carbfix sem landsmenn hafa fylgst með undanfarin ár. Horfur eru á umtalsvert aukinni fjárfestingu í það verkefni en talið er að slík aðferð geti aðstoðað verulega við bindingu í framtíðinni.

Binding með stóraukinni skógrækt

Til er góð og gamalreynd aðferð við að binda koltvísýring í andrúmsloftinu. Það gerist einfaldlega með skógrækt og með henni getum við Íslendingar staðið við allar okkar skuldbindingar í loftslagsmálum kjósum við svo. Mikil þekking býr meðal íslenskra skógræktenda og við höfum eignast marga öfluga vísindamenn á því sviði. Sem allt að því skóglaust land hefur Ísland mikil tækifæri til að binda koltvísýring. Það sem meira er, þetta er ódýr, umhverfisvæn og verðmætaskapandi aðgerð. Þar að auki hefur hún jákvæð áhrif á lífríki og ekki síður mannlífið. Skógrækt verður því að stórauka og ég hef talað fyrir því í ræðu og riti. En þá rísa upp skammsýnir menn og segja að í nýrri skógrækt megi aðeins notast við innlendar tegundir og þó að þær séu fallegar þá er bindingargeta þeirra ekki nema brot af því sem þekkist hjá öflugri trjátegundum, sem reynsla er komin á að geta vaxið hratt hér á landi. Við höfum þekkinguna, vilji er allt sem þarf til að leysa allar skuldbindingar Íslands með skógrækt í stað þess að verja milljörðum í að greiða sektir.

Sjálfbær matvælaframleiðsla

Miðflokkurinn leggur áherslu á að umhverfisvænna sé að framleiða matvæli nálægt heimamarkaði í stað þess að flytja þau um langar vegalengdir. Ísland er harðbýlt land og matvælaframleiðsla hefur hér notið ákveðinna styrkja og fyrirgreiðslu, sem er þó ekki nema brot af því sem tíðkast erlendis. Þar eru gríðarleg tækifæri sem og í umhverfisvænni og heilbrigðri matvælaframleiðslu. Aukin vinnsla á endurnýjanlegri, grænni orku skapar ótal tækifæri í matvælaframleiðslu. Þessi stærsta iðngrein í heimi nýtir ríflega þriðjung alls gróðurlendis og tvo þriðju allrar ferskvatnsnotkunar má rekja til hennar. Engum dylst að matvælaframleiðsla er komin að ákveðnum þolmörkum og umhverfisfótspor matvælakerfisins er gríðarlegt, ekki bara með tilliti til gróðurhúsalofttegunda, heldur einnig áhrifa á lífríki jarðar. Matvælaframleiðsla framtíðar verður stýrt hátækniumhverfi. Hér væru kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu.

Hættum að urða sorp og flytja það út

Ég hef ítrekað lagt fram tillögu til þingsályktunar um að könnuð verði hagkvæmni þess að hér verði reist hátæknisorpbrennslustöð. Sú tillaga hefur ekki fengið afgreiðslu í þinginu. Hingað til hefur langmest af því sorpi sem til fellur hér á landi verið urðað. Þar er um að ræða hundruð þúsunda tonna af sorpi á ári hverju. Urðun losar metan, sem er 20-50 sinnum meira mengandi lofttegund en koltvísýringur. Það sem ekki hefur verið urðað hér hefur verið sent til útlanda til endurvinnslu. Það er ólíðandi. Í ljósi þessa tel ég brýnt að könnuð verði hagkvæmni þess að við sjáum um okkar sorp sjálf og hættum urðun þess, endurvinnum það eins og unnt er og brennum það sem út af stendur á eins umhverfisvænan hátt og unnt er. Ríki heimsins leita nú að grænum hagvexti. Liturinn er ekki aðalatriði en við Miðflokksmenn styðjum lausnir sem í senn auka velferð og lífsgæði og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Við neitum að fara á taugum í þessum málum og horfum til skynsamra lausna. Það hefur gefist mannkyninu best til þessa.

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður og oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.

kgauti@althingi.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 17. september, 2021