Ríkisstjórnin sýnir algert stefnuleysi á tímum faraldurs

Miðflokk­ur­inn hef­ur gagn­rýnt stefnu­leysi rík­is­stjórn­ar­inn­ar í bar­átt­unni við kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn. Rík­is­stjórn­in ákvað að loka land­inu með svo skömm­um fyr­ir­vara að ferðamenn þurftu að snúa við í Leifs­stöð þar sem við þeim blasti lokað land.

Það að loka land­inu er ákvörðun sem hægt er að rök­styðja líkt og hægt er að rök­styðja aðferðir Dana sem eru svipað stadd­ir og Ísland með hlut­falls­leg­an fjölda smita en ekki lokuð landa­mæri.

Mánuðum sam­an hafa ráðherr­ar hamrað á því að við séum ekki slopp­in, veir­an muni senni­lega blossa upp aft­ur, við þurf­um að gæta okk­ar, vera viðbúin ann­arri bylgju o.s.frv.  Millj­arðar hafa runnið úr rík­is­sjóði vegna far­ald­urs­ins, m.a. í að aug­lýsa landið, plástra vinnu­markaðinn, greiða bæt­ur, öskra í kassa, al­ger­lega stefnu­laust, al­ger­lega áætlana­laust og al­ger­lega án framtíðar­sýn­ar.

Hvers kon­ar vinnu­brögð eru það að segj­ast bú­ast við að veir­an blossi upp aft­ur en hafa svo eng­ar áætlan­ir um viðbrögð?  Hvers kon­ar vinnu­brögð eru það að setja hundruð millj­óna í að aug­lýsa landið en loka því svo á einni nóttu?  Hvað á það að þýða að eyðileggja orðspor lands­ins með fyr­ir­vara­laus­um ákvörðunum? Hef­ur rík­is­stjórn­in metið hvað það muni kosta okk­ur að missa trú­verðug­leika ferðasala er­lend­is?  Hvers vegna ættu fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu að reyna að selja ferðir til Íslands þegar óviss­an er al­ger?

Rík­is­stjórn­in veit ekk­ert hvert hún er að fara hvað varðar viðbrögð við kór­ónu­veirufar­aldr­in­um frek­ar en í öðrum mál­um. Lang­tíma­stefn­an er ekki til.  

Ef rík­is­stjórn­in gerði ráð fyr­ir að veir­an myndi lík­lega aft­ur finn­ast, hvers vegna voru eng­ar áætlan­ir til?  Hvernig eiga ís­lensk heim­ili og fyr­ir­tæki að lifa af þegar rík­is­stjórn­in býr til óvissu í stað þess að reyna að eyða henni?  Fram­lengja á tíma­bundn­ar aðgerðir þegar skamm­ur tími er þar til þær eiga að renna út. Hver er sýn þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar?

Hvar er for­yst­an fyr­ir þjóðina þegar á þarf að halda?

Rík­is­stjórn­in hafnaði sam­starfi við Miðflokk­inn líkt og aðra stjórn­ar­and­stöðuflokka. Við hljót­um þá að krefjast þess að rík­is­stjórn­in leggi fram áætlan­ir um viðbrögð því veir­an fer ekk­ert fyrr en búið er að bólu­setja fyr­ir henni.

Á landið að vera áfram lokað? Ef ekki, hvernig verður það opnað? Hvað þarf til að það verði opnað?  Hvað verður gert þegar veir­an gýs aft­ur upp? Hvaða fyr­ir­vara hafa fyr­ir­tæki og heim­ili komi til aðgerða?  Eru til áætlan­ir er varða stór­aukið at­vinnu­leysi, van­skil heim­ila og fyr­ir­tækja eða ætl­ar rík­is­stjórn­in að láta fjár­mála­öfl­un­um eft­ir að ákveða hverj­ir lifa og deyja?

Koma verður heim­il­um og fyr­ir­tækj­um í skjól, líka þeim sem eiga allt sitt und­ir leigu­söl­um, og koma í veg fyr­ir að gengið sé að eign­um fólks. Að því mun koma verði ekk­ert gert.

Nú þarf for­ystu.

 

Höf­und­ur:  Gunn­ar Bragi Sveins­son, þingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 31. ágúst, 2020