Samstillt átak – kjarkur og þor er það sem þarf

Samstillt átak – kjarkur og þor er það sem þarf! Óhætt er að segja að metnaðarfull markmið Miðflokksins fyrir komandi kosningar komi ekki á óvart. Þau byggjast á frjórri ígrundaðri hugsun um uppbyggilega þróun samfélagsins, nokkuð sem manni sýnist að aðrir flokkar síður nenni að sinna. Markmiðin eru merkileg fyrir margra hluta sakir og byggjast á nýrri nálgun um það hvernig hægt væri að bæta samfélagið – hafa áhrif á hegðun og fyrirætlanir fólks. Hér er ætlunin að draga fram tvö mikilvæg stefnumál, Ný réttindi fyrir íslensku þjóðina, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kynnti nýverið.

Af hverju betri ríkisrekstur?

Fyrra stefnumálið ber yfirskriftina: Betri ríkisrekstur fyrir alla. Verði ríkissjóður rekinn með afgangi fá allir fullorðnir íslenskir ríkisborgarar helming afgangsins endurgreiddan til jafns 1. desember árið eftir. Hinum helmingnum verður varið í endurgreiðslu skulda ríkissjóðs eða í varasjóð teljist það hagkvæmara. Þannig skiptir almenningur jafnt með sér þeim ávinningi sem næst með hagkvæmum rekstri ríkissjóðs. Hér er markmiðið að allir leggist á eitt og rekstur ríkisins batni. Meiri fjármunir verði til ráðstöfunar og jafnframt að peningar verði eyrnamerktir þeim verkefnum sem þeim er ætlað, í stað þess að þeir fari í einhverja hít án nokkurs skipulags um hvaða árangri ætlunin er að ná.

Þegar ég starfaði í sveitarstjórnarmálum og stýrði m.a. íþrótta- og tómstundamálum og fleiri nefndum hjá Kópavogsbæ kom mér mjög á óvart sá siður bæði hjá ríki og bæ að ekki mátti vera afgangur af fjárheimild til einstakra málaflokka. Ástæðan var sú að þá var ljóst að við næstu fjárhagsáætlanagerð þyrfti málaflokkurinn ekki eins hátt fjárframlag og því líkur á niðurskurði. Þetta er því miður lenska víða og það er hörð samkeppni á milli málflokka. Þegar nýir málaflokkar voru settir á fót, eins og forvarnir og jafnréttismál á sínum tíma, gat það tekið sinn tíma að sýna fram á mikilvægi þeirra. Stjórnendur Kópavogsbæjar á þessum tíma voru reyndar frumkvöðlar hvað þessa fyrrnefndu málaflokka varðar og fékk t.d. forvarnanefnd, sem ég stýrði, bæði starfsmann og fjármagn strax í upphafi. Það þótti vel að verki staðið. Þetta segir okkur að hver og einn málaflokkur og þeir sem þeim stjórna reyna að taka til sín sem mest fé til að hafa nóg til að sinna ýmsum góðum verkefnum og koma nýjum að. En þetta sýnir líka að það er ekki keppikefli að sýna fram á afgang í rekstri og viðhorfið einnig að ef málflokkurinn skilaði afgangi þyrfti hann ekki meira fjármagn næsta árið. Að mínu viti eru þetta rangar áherslur og geta kallað fram bruðl og óráðsíu sem hægt er að stemma stigu við.

Þess vegna fagna ég hugmyndum um nýja nálgun við rekstur ríkisins (og vonandi sveitarfélaga líka) vegna þess að með þessari sýn, hvatningu til allra um betri rekstur, aukast líkur á að peningunum okkar skattborgaranna verði betur varið og þeir fari í þau verkefni sem skipta framþróun samfélagsins máli og auka verðmætasköpun. Báknið minnkar, hagvöxtur eykst vegna skattalækkana sem skila sér þannig til allra.

Heilbrigðisskimun = lýðheilsulegur jöfnuður

Síðara stefnumálið sem ég vil gera hér að umtalsefni er heilbrigðisskimun fyrir alla. Öllum íslenskum ríkisborgurum, búsettum á Íslandi, 40 ára og eldri, á að bjóðast almenn heilbrigðisskimun á þriggja ára fresti þeim að kostnaðarlausu. Ef þetta yrði að veruleika þá yrði það eitt stærsta skref sem tekið hefur verið hér á landi til að hafa áhrif á bætt heilsufar þjóðarinnar. Það er þekkt að þeir sem hafa minni menntun og eru efnaminni búa við verra heilbrigðislæsi en aðrir og fara síður til lækna. Þá leita karlmenn síður til lækna en konur. Þessi skynsama framkvæmd yrði því sérstök heilsufarsbót fyrir efnaminni, tekjulægri og fyrir karlmenn. Við eigum að gera þá kröfu til ríkisins að það fjárfesti í forvörnum og stuðli að auknum jöfnuði meðal landsmanna um leið.

Á hátíðarfundi Krabbameinsfélags Íslands í tilefni 70 ára afmælis félagsins á dögunum kom fram að stöðugt eykst byrði vegna krabbameina í samfélaginu, þó svo að lífslíkur margra batni einnig sem betur fer. Krabbameinsfélagið talar einmitt um samstillt átak, kjark og þor til að fækka tilvikum og bæta árangur í krabbameinsforvörnum. Þessu er ég hjartanlega sammála. Við þurfum að ganga strax í málið, hugsa hlutina upp á nýtt, bollaleggja og breyta svo um aðferðir. Það þarf að auka fræðslu um heilsusamlegt líferni og aðstoða fólk með ákveðnum hvötum eins og heilbrigðisskoðun fyrir alla!

Ég hvet lesendur til að kynna sér önnur stefnumál Miðflokksins.

 

Una María Óskarsdóttir er lýðheilsufræðingur og varaþingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 6. september, 2021