Við sættum okkur ekki við skipulagða glæpastarfsemi, hvorki innlenda né erlenda

Það ríkir óvenjulegt ástand í löggæslumálum hér í höfuðborginni þessa dagana og það var sérstakt að hlusta á blaðamenn í Silfrinu um helgina. Það sem kom mest á óvart var að nýliðnir voðaatburðir skyldu koma blaðamönnum á óvart. Undanfarin ár hafa komið nokkrar skýrslur frá greiningardeild ríkislögreglustjóra um að hér starfi bæði innlend og erlend glæpagengi og stundi hér m.a. mansal og framleiðslu og dreifingu fíkniefna.
 
Það kom líka á óvart að blaðamenn virðast veigra sér við að merkja sér fréttir af atburðinum. Málflutningur eins blaðamannsins var á þá leið að mesta hættan lægi í fari ómerkilegra stjórnmálamanna sem myndu kynda undir ótta við útlendinga. Skot útí loftið.
 
Við höfum þegar kosið einusinni til Alþingis vitandi af útlendum glæpaklíkum án þess að neinn hafi gert sér mat úr því. Lögreglan er augljóslega slegin yfir þessari þróun. Hrós fær samt lögreglan fyrir fumlaus vinnubrögð við rannsókn málsins en falleinkunn fyrir upplýsingagjöf. Ég geri mér grein fyrir að erfitt er að láta allar upplýsingar af hendi vegna rannsóknarhagsmuna og þessi rannsókn er verulega flókin. Nú þurfa allir hins vegar að stíga fast til jarðar. Dómsmálaráðherra þarf ásamt lögreglu að kortleggja nauðsynlegar aðgerðir. Þingið þarf að tryggja fjármun til nauðsynlegra bjarga hvort sem er mannafli eða búnaður.
Enginn stjórnmálamaður sem mark er á takandi hefur farið fram á aukinn vopnburð almennrar lögreglu.
 
Miðflokksmenn hafa lagt fram mótaðar fjármagnaðar tillögur við hverja fjárlagaafgreiðslu undanfarin ár um eflingu almennrar löggæslu og aukna tollgæslu á landamærum. Því miður fyrir daufum eyrum.  Við sættum okkur ekki við keðjuverkun hefndaraðgerða glæpahópa í friðsælasta ríki í heimi.
Við sættum okkur ekki við og eigum ekki að þola að ungur fjölskyldumaður sé skotinn til bana á þaulskipulagðan hátt í friðsælu húsahverfi. Við sættum okkur ekki við skipulagða glæpastarfsemi hvorki innlenda eða erlenda. Hana þarf að uppræta með öllum ráðum. Við látum ekki glæpavæða Ísland.