Skrýtin staða í stjórnmálum

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, tók til máls á Alþingi í dag og ræddi um hina "skrýtnu" stöðu stjórnmála nú í aðdraganda kosninga.

"Herra forseti. Þessa dagana er svolítið skrýtin staða í stjórnmálunum. Loksins er komið í ljós, eftir mánaðabið og endurteknar spurningar okkar Miðflokksmanna frá því fyrir jól, að við höfum komið okkur fyrir í skottinu hjá Evrópusambandinu, og jafnframt, sem er kannski enn undarlegra, afsalað okkur rétti okkar sem sjálfstæðrar þjóðar til að leitast við að semja sjálf um kaup á bóluefni sem bjargað gæti heilsu fólks, flýtt fyrir endurreisn efnahagsins og aflétt einangrun þúsunda. Hefur ríkisstjórnin með þessu haft það í fyrirrúmi að gæta hagsmuna landsmanna?

Stjórnarflokkarnir eru farnir að haga sér alleinkennilega og greinilegt að þar leikur nálægð kosninganna stórt hlutverk. Ríkisstjórnarflokkarnir eru, hver á fætur öðrum, farnir að spila sóló í fjölmörgum málum og hinir, félagar þeirra, keppast svo við að lýsa andstöðu sinni við mál þeirra. Línurnar skerpast með hverjum deginum í afstöðumun flokkanna þriggja sem hanga þó enn saman í ríkisstjórninni. Fyrst skal nefna hálendisþjóðgarðinn þar sem örlítill grenjandi minni hluti reyndist eftir allt saman þó nokkur meiri hluti þjóðarinnar og hreint alls ekki grenjandi. Félagar VG í ríkisstjórn eru vægast sagt tvístígandi í því máli á meðan hver sveitarstjórnin á fætur annarri lýsir yfir fullkominni andstöðu við frumvarpið. Framsóknarflokkurinn, sem alla jafna forðast að taka nokkra afstöðu, ætlar að knýja fram viðamikla sameiningu sveitarfélaga með lagasetningu í mikilli andstöðu við marga sveitarstjórnarmenn og íbúa. Málefni hælisleitenda hafa á vakt Sjálfstæðismanna verið þungur og stækkandi baggi á ríkissjóði og galopin landamæri valda því að fjármunir streyma úr ríkissjóði en innan ríkisstjórnarinnar er staðið í vegi fyrir því að stytta málsmeðferðartíma. Þar skerum við okkur verulega úr miðað við önnur lönd. Í þeim málaflokki rekum við stefnu sem Norðurlöndin hafa horfið frá og forsætisráðherra Dana kallar mistök. Gætir ríkisstjórnin hagsmuna landsmanna með þessum stjórnlausu útgjöldum?"

Upptöku úr þingsal má sjá hér