Sláið í klárinn það liggur á

Sláið í klárinn það liggur á

Þannig týnist tíminn þegar ekkert gerist. Hafnfirðingar með Álverið í Straumsvík í túnfætinum bíða í ofvæni eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar vegna gríðarlegs rekstrartaps álversins. Vart þarf að minna á að álverið tapaði um 13 milljörðum króna á síðasta ári, eða rúmum milljarði á mánuði. Þetta gerist þrátt fyrir að þar á bæ hafi verið ráðist í umtalsverðar hagræðingar og fækkunar á starfsfólki.

Hin  blákalda staðreynd  er að Rio Tinto, eigandi álversins er farinn að skoða mismunandi sviðsmyndir af framhaldinu og því miður eru þar uppi hugmyndir um lokun þess. Slík tíðindi eru uggvænleg enda álverið í Straumsvík algjört ankeri í atvinnulegu tilliti Ef verksmiðjan lokaði  myndu ekki aðeins starfandi launþegar hjá álverinu missa atvinnuna heldur líka fjöldinn allur af störfum er tengjast þjónustu við álverið (afleidd störf) leggjast af með tilheyrandi atvinnumissi . Hér er verið að tala um 800-1000 manns. Ennfremur myndi Hafnarfjarðarbær verða af hálfum milljarði króna á ári gróflega áætlað. Ef fyrirtækið færi í gjaldþrot yrði Landsvirkjun sennilega af fimmtungshluta af tekjum sínum.

Allt þetta hér að ofan lætur ríkisstjórnin reka á reiðanum og horfir á en lítið gerist. Og á meðan týnist tíminn og að endingu er allt orðið um seinan.

Það hefur vakið athygli mína að bæjarfulltrúar í Hafnarfirði fá flestar þessara alvarlegu fregna í gegnum fjölmiðla. Það er ótækt. Það yrði heldur betur tómahljóð í bæjarsjóði ef tekjurnar af álverinu þurrkuðust út, ekki síst núna þegar allt er stopp vegna Covid faraldursins. Nei slíkt má ekki gerast. Óvissan vegna kórónaveirunnar (SARS-CoV-2) er þrúgandi. Óvissa þeirra sem reka sveitarfélög og fyrirtæki sem skapa fjölda fólks atvinnu er þrúgandi. Karfan er aðgerðapakki til að tryggja áframhaldandi rekstur álversins í Straumsvík og eyða a.m.k. þeirri óvissu.

 

Sigurður Þ. Ragnarsson

Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Hafnarfirði