Spurningar vakna um stöðu Sjálfstæðisflokksins

Sú staða er nú uppi að Vinstri græn­ir hafa komið í veg fyr­ir fram­kvæmd­ir við varn­ar­mann­virki án rök­stuðnings. Áður hafði for­ysta sama flokks hrakið sjálf­stæðismann úr embætti dóms­málaráðherra, en ára­tuga hefð er fyr­ir því að sam­starfs­flokk­ar í rík­is­stjórn hafa haft for­ræði yfir skip­an ráðherra­embætta sinna. Eins hafa ráðherr­ar hingað til haft for­ræði yfir mál­um á sín­um veg­um. Þetta virðist ekki leng­ur eiga við. For­ysta VG sýn­ist hafa neit­un­ar­vald um hverj­ir skipa ráðherra­stóla Sjálf­stæðis­flokks­ins og kom­ast upp með að leggja bann við varn­ar­fram­kvæmd­um þótt þær séu í sam­ræmi við þjóðarör­ygg­is­stefnu sem í stjórn­arsátt­mála er sögð liggja til grund­vall­ar sam­starfi flokk­anna.

 

Skemmd­ar­verk Vinstri grænna í skjóli sjálf­stæðismanna

Um­fang varn­ar­fram­kvæmda er talið hlaupa á 12-18 millj­örðum króna, en lít­ils mót­fram­lags var kraf­ist frá ís­lenska rík­inu. Hefði til­heyr­andi starfa­fjöldi komið sér vel þar syðra þar sem at­vinnu­leysi mæl­ist ná­lægt 30%. Að sögn bæj­ar­stjóra Reykja­nes­bæj­ar hefði í fram­kvæmd­un­um fal­ist mik­il inn­spýt­ing fyr­ir sam­fé­lagið á Suður­nesj­um. Ráðuneyt­in lögðu öll til til­lög­ur að innviðaupp­bygg­ingu, en á þessu stigi varð ekk­ert af mín­um hug­mynd­um. Það er í raun ekk­ert annað um það að segja, seg­ir ut­an­rík­is­ráðherra. Að sögn for­manns ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar kall­ar afstaða Vinstri grænna á rök­stuðning. Það er ábyrgðar­hluti ef menn ætla að hverfa frá þjóðarör­ygg­is­stefn­unni með þess­um hætti og hunsa þannig mögu­leg­ar þarf­ir í varn­ar­sam­starfi okk­ar, seg­ir Sig­ríður Á. And­er­sen. For­sæt­is­ráðherra kveðst mót­fall­in hernaðar­upp­bygg­ingu og sagði: Mér finnst óviðeig­andi að blanda auk­inni hernaðar­upp­bygg­ingu inn í efna­hagsaðgerðir stjórn­valda. Þessi afstaða hef­ur ekki verið rök­studd. Virðist ráðherra telja nægja að skipta út orðinu varn­ar­fram­kvæmd­ir fyr­ir orðið hernaðar­upp­bygg­ing til að skýra kenj­ar og kredd­ur VG gegn nauðsyn­legri upp­bygg­ingu varna og borg­ara­legra innviða í land­inu.

Málið í sögu­legu ljósi

Marg­ir muna gagn­rýni í leiðara þessa blaðs á Kristján Eld­járn, for­seta Íslands, fyr­ir að fela Lúðvík Jóseps­syni umboð til stjórn­ar­mynd­un­ar 1978. Mik­il­vægt þótti einnig að gæta að embætti dóms­málaráðherra, yf­ir­manns lög­reglu, í ljósi eldri flokks­kenn­inga um vald­beit­ingu. Nú hef­ur flokk­ur sem í bein­an flokks­legg er kom­inn af Komm­ún­ista­flokkn­um með for­vera í Alþýðubanda­lagi og Sósí­al­ista­flokki stöðvað fram­kvæmd­ir á sviði varn­ar­mála gegn ein­dregn­um mót­mæl­um Sig­ríðar Á. And­er­sen for­manns ut­an­rík­is­nefnd­ar sem kall­ar eft­ir skýr­ing­um. Já, þeirr­ar sömu Sig­ríðar Á. And­er­sen og for­ysta Sjálf­stæðis­flokks­ins sýn­ist mögl­un­ar­laust hafa látið víkja úr embætti dóms­málaráðherra að kröfu for­ystu VG. Ýmsir hljóta að spyrja þessa dag­ana hvort ekki sé það mann­tak í Sjálf­stæðis­flokkn­um sem dugi til að hrinda af sér þess­ari ráðstjórn VG á flokkn­um.

 

Höfundur:  Ólaf­ur Ísleifs­son, alþingismaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Pistill sem birtist í Morgunblaðinu þann 18. maí, 2020.