Staða ferðaþjónustunnar

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn sinni um stöðu ferðaþjónustunnar og þá sérstaklega hvað varðar undanþágur frá sóttvarnaraðgerðum, til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á Alþingi í dag.  

"Ýmsar undanþágur hafa verið við lýði allt frá því að fyrstu sóttvarnaaðgerðir voru kynntar. Strax í upphafi var kerfis- og efnahagslega mikilvægum fyrirtækjum veitt heimild til að starfa með opnari hætti en almennar sóttvarnareglur sögðu til um. Vinnusóttkví hefur verið viðvarandi lausn fyrir erlenda starfsmenn sem koma til landsins í tiltekin verkefni. Kvikmyndaverkefni hafa notið undanþága og íþróttalið sem hingað koma til lands hafa fengið svigrúm til að athafna sig með undanþágum frá ýmsum reglum sem í gildi eru. Allt hefur þetta gengið vel, alveg hreint prýðilega.

Mig langar að nefna einn hóp rekstraraðila sem hefur verið rétt stutta stráið í þessu öllu. Raunar er varla hægt að segja annað en að þeir aðilar sem sinna svokölluðum fágætisferðamönnum hafi verið dregnir á asnaeyrunum af stjórnvöldum og þar virðist enginn undanskilinn, hvorki embætti sóttvarnalæknis, atvinnuvegaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið né aðrir þeir sem komið hafa að þrautagöngu þessara aðila við að sýna fram á og móta, í samráði við embætti sóttvarnalæknis, leiðir til að geta þjónustað litla einangraða hópa sem skilja mikið eftir sig efnahagslega og tryggja atvinnu á sínu nærsvæðum.

Mig langar í þessu samhengi að nefna tvö fyrirtæki sem sinna mjög afmörkuðum hópum og hafa útfært reglur um starfsemi sína að því gefnu að þau fái undanþágu frá stjórnvöldum, en það virðist vera fullkomin þvermóðska að hafna umleitan þeirra. Þetta eru tvö fyrirtæki fyrir norðan, annars vegar Deplar Farm og hins vegar Bergmenn – Arctic Heli Skiing, sem bæði gera út á vetrarþjónustu fyrir mjög afmarkaða hópa. Af þeim samskiptum sem liggja fyrir er í besta falli hægt að orða það þannig að þessi félög og væntanlega fleiri hafi verið dregin á asnaeyrunum.

Í þessu samhengi langar mig til að spyrja hæstvirtan ráðherra sem ráðherra ferðamála í fyrsta lagi: Hvernig telur ráðherra hafi tekist til við að útfæra undanþágur þar sem þær eru skynsamlegar og réttlætanlegar?

Og í öðru lagi: Telur ráðherrann vera samræmi á milli ákvarðana er snúa að undanþágum íþróttaliða og kvikmyndatökuhópa annars vegar og þjónustuaðila í svokallaðri fágætisferðaþjónustu hins vegar?

Ég hef fyrir framan mig tímalínu í samskiptum eins fyrirtækis við stjórnvöld.  Það er ekki út af engu sem ég lít þannig á að það fyrirtæki hafi verið dregið á asnaeyrunum. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að skoða þessa þrautagöngu alla. Til viðbótar við að spyrja hver viðbrögðin hafi verið við fyrirspurnum ráðherra um samræmi í aðgerðum langar mig að bera fram spurningu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Hver telur ráðherra vera skynsamleg næstu skref hvað breytingar og mögulegar undanþágur varðar fyrir þau fyrirtæki sem blasir við að geta útfært þjónustu sína með þeim hætti að smithætta verði hverfandi og í öllu falli verði smitrakning eins einföld og hún getur orðið, komi smit upp?"

Upptöku af fyrirspurn Bergþórs og svar ráðherra má sjá hér