Staðan í Úkraínu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók til máls í störfum þingsins um stöðuna í Úkraínu og hvernig við getum aðstoðað. 

Herra forseti. Ég kem hingað af fundi sem Miðflokkurinn hélt með tveimur úkraínsku konum sem hafa búið hér um nokkurt skeið, önnur þeirra í 20 ár og er kennari í Hafnarfirði. Þetta voru þær Tanya og Valeria sem lýstu ástandinu í Úkraínu og stöðu frændfólks síns og vina þar í landi. Auðvitað er það alltaf sérstaklega tilfinningaríkt þegar maður heyrir sögurnar beint frá fólki sem upplifir hlutina sjálft eða í gegnum nákomna. Þær upplýstu okkur um að Úkraínumenn hér á landi og fólk af úkraínskum ættum haldi vel saman og muni núna opna hópinn fyrir Íslendingum sem hafa áhuga á að taka þátt og aðstoða Úkraínu. Það er einnig til hópur sem heitir Ísland fyrir Úkraínu og heldur m.a. úti Facebook-síðu. Ég hvet fólk til þess að kynna sér þetta starf og setja sig í samband við þetta fólk því að það munar ótrúlega mikið um að komast í bein samskipti við fólk sem er að ganga í gegnum slíka erfiðleika, bæði fyrir okkur að kynnast því nánar hvað þarna er um að vera, en einnig fyrir fólk til að skynja, maður á mann, persónulegan stuðning. Það eru ýmsar leiðir sem Íslendingar geta farið, bæði í gegnum hjálparsamtök og beint í gegnum þessa hópa til að styðja einstaklinga í Úkraínu. Ég vildi hvetja hv. þingmenn og aðra sem á hlýða að kynna sér þessa hópa, Ísland fyrir Úkraínu og Úkraínumenn á Íslandi, sem hyggjast nú opna hópinn fyrir Íslendingum sem hafa áhuga á að kynna sér málið nánar og veita aðstoð.

 

Ræðuna má sjá hér