Stefnulaus stjórnmál á Íslandi

Það kreppir að í íslenskum stjórnmálum, dugur og kjarkur er á undanhaldi. Um leið hriktir í stoðunum á stjórnarheimilinu, stjórnarsamstarfið hangir á bláþræði. Stefnuleysi flestra flokka minnir meira á villuráfandi sauði en stefnufasta stjórnmálamenn.

Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í herðar niður, fram undan blóðug barátta milli Bjarna og Guðlaugs Þórs. Jón Gunnarsson reynir að koma skikki á málaflokk hælisleitenda og hefur staðið í báða fætur þrátt fyrir að hafa ekki verið bakkaður almennilega upp af ríkisstjórninni í hælisleitendafrumvarpi sínu.

Bjarni Ben. virðist þrotinn að þeim pólitíska eldmóði sem lengstum hefur einkennt hans feril. Mótframboð nú er staðfesting á því að æ fleiri flokksmenn hans telja svo vera.

VG undir forystu Katrínar hefur dalað mikið eftir því sem liðið hefur á stjórnarsamstarfið. Togstreita er mikil innan VG milli þeirra afla sem leggja fæð á samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn og þeirra sem styðja það.

Katrín virkar ansi teygð og toguð vegna þessara átaka og ekki víst að vinskapur hennar og Bjarna dugi miklu lengur til að verja ríkisstjórnina falli.

Framsókn er einfaldlega stefnulaust rekald! Rekur svokallaða frasapólitík; „mætumst á miðjunni“, „er ekki bara best að kjósa Framsókn!“

Þetta virkaði í alþingiskosningunum og einnig í síðustu sveitarstjórnarkosningum. En nú eru runnar á landsmenn tvær grímur, því á bak við frasana er engin merkjanleg stefna og fólkið í landinu búið að átta sig á markaðstrixinu.

Sigurður Ingi passar að tjá sig ekkert um þau mál sem helst brenna á landi og þjóð. Þar vantar alla forystuhæfileika, ávallt siglt milli skers og báru.

Viðreisn og Þorgerður Katrín eru enn þá að tala fyrir aðild að Evrópusambandinu, hverslags þráhyggja er þetta? Hvenær ætlar alþingismaðurinn Þorgerður Katrín að átta sig á því að Íslendingar, flestir hverjir, eru algerlega andsnúnir aðild?

Píratar eru helstu andstæðingar velferðarkerfisins sem hefur verið í uppbyggingu í margar kynslóðir. Þeim finnst ekki tiltökumál að tíu þúsund milljónir streymi úr sjóðum ríkisins í málaflokkinn hælisleitendur/flóttamenn á árinu 2022. Þeir berjast með öllum tiltækum ráðum gegn virku regluverki um málaflokkinn.

Um leið tala Píratar fyrir opnum landamærum og gegn íslenskri velferð. Hlutverk þeirra í stjórnarandstöðu virðist eingöngu snúast um að beina mismunandi útfærslum af ókvæðisorðum til stjórnarliða, þeir hafa engin raunveruleg baráttumál eða stefnu.

Samfylkingin hefur búið við forystukreppu í langan tíma. Við skulum gefa nýkjörnum formanni, Kristrúnu Frostadóttur, og varaformanninum Guðmundi Árna tækifæri til að endurreisa Samfylkinguna og síðan dæma þau af verkum sínum.

Ég ætla ekki að ræða frammistöðu Flokks fólksins á þessu þingi í mörgum orðum. Þeir eru sofandi í sínum þingstörfum og það í orðsins fyllstu merkingu. Þingstörf þeirra einkennast af miklu dugleysi.

Einn af fáum flokkum sem sýna dug, kjark og sterk stefnumál er Miðflokkurinn. Sigmundur Davíð og Bergþór Ólason hafa þrátt fyrir smæð flokksins slegið skjaldborg um velferðarkerfið og unnið hörðum höndum að því að stemma stigu við þeirri óheillaþróun og óráðsíu sem er að raungerast um þessar mundir í íslensku velferðarkerfi. Hvort sem um er að ræða mál flóttamanna, kerfisbáknið eða orkupakka 3 stígur Sigmundur Davíð fram af skörungsskap og hugdirfsku. Lætur engan kveða sig í kútinn. Er málefnalegur og rökfastur, einn af sárafáum þingmönnum sem láta eitthvað að sér kveða á alþingi okkar Íslendinga um þessar mundir.

Lárus Guðmundsson, oddviti Miðflokksins í Garðabæ fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember, 2022.