Stefnuræða formanns Miðflokksins

Stefnuræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, á Aukalandsþingi þann 21. nóvember, 2020:

Þingforseti, kæru félagar og vinir.

Við hefjum nú annað landsþing okkar við sérstaklega óvenjulegar aðstæður í stjórnmálunum. Áhrif heimsfaraldursins á daglegt líf eru augljós. En um leið hefur stjórnmálastarf í landinu að miklu leyti legið í dvala.

Við í Miðflokknum höfum þurft að aflýsa ótal viðburðum eða breyta formi þeirra. Þessi fundur er einmitt dæmi um það. Það hefur á margan hátt verið erfitt að geta ekki tekið þátt í eðlilegu flokksstarfi. Við þær aðstæður er alltaf hætta á að eitthvað gleymist og þeir sem hefðu viljað láta til sín taka missi af tækifæri til þess.

Verst er þó að stjórn landsins hefur nánast verið sett í salt eða lögð í súr. Í þrjá ársfjórðunga hefur starf ríkisstjórnarinnar og Alþingis markast svo af viðbrögðum við faraldrinum að vart er hægt að tala um eðlilegt og lýðræðislegt stjórnarfar.

Í sóttvarnarmálum hefur ríkisstjórnin fylgt leiðsögn sérfræðinga rétt eins og aðrir landsmenn en á meðan hefur fjöldi óleystra stórmála legið óbættur hjá garði.

Mörg þessara mála voru orðin aðkallandi löngu áður en faraldurinn hófst. Vandi tugþúsunda lítilla og meðalstórra fyrirtækja, vandi heilbrigðiskerfisins, eldri borgararnir sem máttu ekki bíða lengur eftir leiðréttingu sinna mála, landbúnaðurinn sem þegar var komin í verulega hættu. Þannig mætti lengi telja.

Það er tímabært að ræða þessi mál og önnur óleyst viðfangsefni því að ef faraldurinn verður til þess að við vænrækjum þau verður tjónið af þessu tímabundna ástandi varanlegt og miklu meira en sá gríðarlegi efnahagsskaði sem þegar hefur orðið.

Um leið hefur stjórnmálunum og lýðræðinu sjálfu haldið áfram að hnigna eins og ég mun rekja hér á eftir.

En fyrst er rétt að víkja að viðbrögðum stjórnvalda við faraldrinum. Ekki sóttvörnunum sem aðrir hafa leitt heldur viðbrögðunum við öðrum afleiðingum faraldursins.

Strax og ljóst varð í hvað stefndi síðastliðinn vetur, og áður en stjórnvöld höfðu kynt aðgerðir sínar, lagði Miðflokkurinn fram tillögur að viðbrögðum. Við auglýstum tillögurnar meira að segja í fjölmiðlum til að vekja athygli á þeim því þær voru knýjandi.

Tillögurnar voru stórtækar og almennar. Síðan þá höfum við reglulega birt tillögur okkar um hvernig bregðast megi við og lagt til breytingar á tillögum stjórnvalda á Alþingi.

Þrátt fyrir tal um mikilvægi samstöðu hafa allar slíkar tillögur verið felldar. Hver ein og einasta.

Ríkisstjórnin hefur reglulega haldið glærukynningar til að auglýsa viðbrögð sín við ástandinu hverju sinni. Oft virðist þó meiri vina hafa verið lögð í sýninguna, umbúðirnar, en tillögurnar sjálfar. Jafnvel hinar stærstu þeirra hafa að engu orðið. 

Þó hefur ríkisstjórnin einnig lagt fram tillögur sem komið hafa að miklu gagni. Frá upphafi höfum við einsett okkur að styðja allar slíkar aðgerðir þótt þær séu stundum ólíkar þeim sem við hefðum viljað ráðast í.

Við munum áfram leggja fram tillögur og nú styttist í að ríkisstjórnin afgreiði síðustu fjárlög sín. Vonandi munu þau nota tækifærið til að sýna að eitthvað sé að marka yfirlýsingar um samstöðu og samstarf við þessar erfiðu aðstæður.

En það þarf að huga að fleiru en heimsfaraldrinum. Á þessu kjörtímabili hefur Miðflokkurinn látið til sín taka á öllum sviðum stjórnmálanna. Mörg erfið mál eru óleyst og mörg tækifæri vannýtt.

Sérstakar aðgerðir í efnahagsmálum á árunum 2013 til 16, einkum skuldaleiðrétting og uppgjör á slitabúum bankanna, skiluðu mesta og hraðasta efnahagslega viðsnúningi sem nokkurt ríki hefur náð, að minnsta kosti í seinni tíma sögu.

Sú staða sem þannig varð til hefur gert okkur kleift að takast á við gríðarlega niðursveiflu vegna faraldursins. En staðan átti líka að nýtast til að rétta hlut fjölda fólks sem nú hefur beðið í meira en áratug eftir leiðréttingu.

Það má ekki gleyma þeim hópum og atvinnugreinum sem voru lentar í verulegum vanda, jafnvel hættu, áður en stjórnmálaumræða tók að hverfast um veirufaraldur.

Landbúnaður, undirstöðuatvinnugrein Íslendinga frá upphafi, greinin sem hefur haldið lífi í þjóðinni frá landnámi og reynst grunnstoð byggðar á Íslandi og stór þáttur í menningu landsins hefur verið settur í nauðvörn.

Það er sótt að greininni úr mörgum áttum samtímis. Búvörusamningar virðast snúast um samdrátt fremur en sókn, óhagstæður tollasamningur við Evrópusambandið gerir bændum erfitt fyrir og veikir samkeppnisstöðu greinarinnar, heimild til að flytja inn hrátt, ófryst kjöt og ógerilsneyddar matvörur bætist þar við.

Ofan á það leggst sístækkandi reglugerðarfargan, sem einnig er að miklu leyti innflutt en útfært þannig að íslenskir bændur þurfa að uppfylla meiri og dýrari skilyrði en matvælaframleiðendur víða annars staðar. Um leið lækkar afurðaverð.

Og nú, með faraldrinum, hefur neyslan dregist saman án þess að greinin hafi notið mótvægisaðgerða eins og tilefni er til.

Stjórnvöld sýndu viðhorf sitt til greinarinnar strax í upphafi með fjármálaáætlun sem sýndi að af öllum þeim greinum þar sem ríkisvaldið kaupir þjónustu væri aðeins ein, landbúnaður, þar sem gert væri ráð fyrir minnkandi framlögum ár frá ári. Þetta hefur birst í kjörum bænda og sauðfjárbændur standa frammi fyrir algjöru neyðarástandi.

Við þessu þarf að bregðast strax og nú hefur Miðflokkurinn lagt fram á Alþingi heildarstefnu um eflingu íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu í landinu. Áætlunin er róttæk og hún mun kosta sitt en það er í samræmi við tilefnið. Ef við leyfum íslenskum landbúnaði að fjara út mun það reynast samfélaginu miklu dýrara og þá verður of seint að iðrast.

Fleiri hópar hafa beðið árum saman eftir leiðréttingu sinna mála. Eldriborgarar hafa ekki enn fengið fulla leiðréttingu á skerðingum sem þeir máttu þola eftir bankahrunið. Gleymum því ekki að aldurshópurinn sem hafði byggt upp samfélagið var ekki ofsæll af sínu fyrir skerðingarnar.

Á sínum tíma gaf ríkisstjórn mín fyrirheit um að þegar sá árangur sem við stefndum að í efnahagsmálum hefði náðst fengju þeir sem byggðu upp samfélagið að njóta þess. Árangurinn náðist og gott betur en það en biðin stendur enn.

Á meðan stórir hópar landsmanna og heilu atvinnugreinarnar bíða nauðsynlegra aðgerða er tugum milljarða ausið í óljós gæluverkefni.

Fyrir skömmu tók þingflokkur Miðflokksins mikinn slag í þinginu til að reyna að koma í veg fyrir galin áform um stofnun nýs opinbers hlutafélags sem átti að hafa þau markmið að selja verðmætar eignir ríkisins og leggja ný gjöld á almenning til að fjármagna hið óhagkvæma og skaðlega Borgarlínuverkefni.

Við náðum að setja inn nokkra varnagla en eins og við spáðum heldur kerfið áfram á sinni braut, sinni línu, þegar því hefur verið hleypt af stað. Sem betur fer kemur smátt og smátt skýrar í ljós hversu vanráðið þetta verkefni er.

Við sjáum líka að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur engin áform um að standa við sinn hluta svo kallaðs samgöngusáttmála.

Sá sáttmáli er hinn nýjasti í röð nokkurra samninga sem borgarstjórninni hefur tekist að plata ríkisstjórnina, og einkum samgönguráðherra til að undirrita.

Frægir eru samningarnir um Reykjavíkurflugvöll. Áður en blekið var þornað upplýsti borgarstjórinn að sá samningur tryggði brotthvarf flugvallarins.

Við sjáum hversu mikilvægt það er að hafa ríkisstjórn sem stjórnar, tryggir heildarhagsmuni landsins og fer vel með skattfé. En á meðan við fylgjumst með ríkisstjórn sem kastar 50 milljörðum í fyrstu greiðslu óhagkvæms gæluverkefnis og lætur óútfylltan tékka fylgja með, getum við rétt ímyndað okkur hverju væri hægt að áorka með ríkisstjórn sem fjárfestir af skynsemi og sanngirni og hugsar til framtíðar.

Annað svið þar sem nauðsynlegt er að fara betur með almannafé er heilbrigðisþjónustan. Á hverju einasta ári ári heyrum við af fjárhagsvanda heilbrigðiskerfisins. Fjárframlög aukast ár frá ári en samt virðist þjónusta við sjúklinga og aðstæður heilbrigðisstarfsmanna ekki batna að sama skapi.

Eins og fyrrverandi landlæknir sagði er hægt að bæta endalaust fjármagni í heilbrigðiskerfið án þess að það batni ef kerfið sjálft er ekki lagað. Bent var á að með óbreyttu kerfi geti aukin framlög jafnvel aukið vandann eða fest hann í sessi.

Núverandi ríkisstjórn virðist staðráðin í að nýta ekki tækifærin sem blasa við, jafnvel í því neyðarástandi sem við erum að takast á við. Við þekkjum öll sögurnar um skipulagða óhagkvæmni til dæmis vegna mjaðma- og hnéaðgerða.

Miðflokkurinn mun ávallt standa vörð um almannatryggingar þar sem ríkið fjármagnar nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir alla. En eigi það að vera hægt verður ríkið að laga kerfið og geta nýtt sér hagkvæmni, m.a. með því að kaupa þjónustuna af þeim sem geta veitt hana á sem bestan og hagkvæmastan hátt.

Eitt skýrasta dæmið um hvað hægt hefði verið að gera ef skynsemi réði för, fremur en kerfisræði, var bygging nýs 21. aldar þjóðarsjúkrahúss á nýjum stað fremur en að byggja við úrelt húsnæði Landspítalans við Hringbraut.

Það er þó ekki of seint að bæta þar úr. Nú, þegar farið er að renna upp fyrir flestum að Hringbrautarspítalinn muni ekki leysa öll hlutverk þjóðarsjúkrahúss til framtíðar er tilefni til að hefja undirbúning nýs þjóðarsjúkrahúss á nýjum stað.

Miðbæjarspítalinn mun gegna mikilvægu hlutverki rétt eins og sjúkrahúsin sem nú þarf að efla á landsbyggðinni. Síðustu misseri hafa sýnt okkur að ekki veitir af að endurnýja sjúkrastofnanir og reka þær víðar en á einum stað.

 

Byggðamál þarf að taka til gagngerar endurskoðunar. Á því sviði hefur Miðflokkurinn verið leiðandi ekki hvað síst með stóru tillögunni okkar fyrir síðustu kosningar sem við kynntum undir nafninu Ísland allt.

Sú tillaga stendur enn fyrir sínu og þörfin fyrir nýja nálgun í málaflokknum er orðin augljósari en áður. Með áætluninni um Ísland allt spilar allt saman svo að Ísland geti virkað sem ein heild þar sem allir landsmenn njóta jafnréttis og jafnra tækifæra óháð búsetu. Ekkert myndi hafa eins mikil áhrif á aukna verðmætasköpun og bætt kjör landsmanna eins og þær aðgerðir sem lýst er í tillögunni.

Á meðan megnið af landinu er í raun vanrækt, og meira að segja flest hverfi höfuðborgarsvæðisins, vex báknið í miðbæ Reykjavíkur og það hefur áhrif á líf allra landsmanna. Það er ekki að ástæðulausu sem við í Miðflokknum settum af stað átak til að takast á við báknið skömmu áður en faraldurinn hófst.

Vinna við þetta hófst reyndar árið 2013 og árið eftir birti forsætisráðuneytið áætlun um hvernig mætti minnka báknið. Meðal þess sem við lögðum til var að ríkinu yrði ekki heimilt að setja á nýjar íþyngjandi reglur eða lög nema tvær slíkar reglur dyttu út í staðinn.

Hagræðingarnefnd Vigdísar Hauksdóttur fór í gegnum rekstur ríkisstofnana. Einnig var samin handbók sem átti að nýtast ríkisstofnunum við að spara fjármagn og einfalda líf borgaranna.

Eftir 2016 hefur lítið gerst í þessum málum og báknið haldið áfram að vaxa. Fyrir vikið verður sífellt flóknara að lifa daglegu lífi á Íslandi svo ekki sé minnst á að stofna eða reka lítil fyrirtæki og skapa ný störf og verðmæti.

Þegar við höfum vakið athygli á þessu hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar verið þau að benda á að þrátt fyrir vöxt kerfisins hafi landsframleiðsla vaxið enn hraðar. Báknið hafi því ekki stækkað hlutfallslega. En nú er það allt breytt. Eftir mikið fall landsframleiðslunnar er kerfið nú stærra en nokkru sinni.

Í heild og hlutfallslega. Aðstæður kalla því á, meira en nokkru sinni fyrr, að brugðist verði við. 

Óbreytt þróun getur ekki haldið áfram. Við höfum ekki efni á því.

Kostnaðurinn af rekstri kerfisins er greiddur með skattlagningu landsmanna sem þegar er ein sú mesta í heimi þegar lífeyrisgreiðslur eru teknar með (eins og eðlilegt er). En kostnaðurinn er líka fjármagnaður með skerðingum.

Þeir sem helst líða fyrir eru tekjulægri hópar og lítil og meðalstór fyrirtæki. Kostnaðurinn af því að fást við kerfið leggst þyngst á þau. Flókið og íþyngjandi regluverk hindrar það sem við þurfum á að halda, sérstaklega núna, lægri álögur, ný störf, aukin verðmætasköpun og betri kjör almennings.

Óskilvirkt bákn er líka helsta hindrun nýsköpunar sem stjórnmálamönnum verður svo tíðrætt um á meðan þeir halda áfram að leggja steina í götu þeirra sem vilja láta reyna á nýjar hugmyndir.

Við munum halda áfram að leggja áherslu á baráttuna við báknið og kynna lausnir.

 

Frá ríkisstjórninni streyma nýjar álögur og hækkun þeirra gjalda sem fyrir eru. Á meðan fer kerfið sínu fram við að leggja í síauknum mæli undir sig stjórn daglegs lífs.

Oft er þessu pakkað inn í fallegar umbúðir eins og sjá má af því sem stjórnvöld kalla nú hálendisþjóðgarð. Þegar betur er að gáð ganga áformin hins vegar út á að taka stóran hluta landsins undan lýðræðislegri stjórn íbúanna.

Við í Miðflokknum erum þjóðrækin og þeir sem, eins og við, unna landinu vilja vernda hina einstöku náttúru þess. En við höfnum öfgum ...sem ganga stundum svo langt að maðurinn virðist ekki mega eiga sess í náttúrunni.

Það má ekki einu sinni framleiða og flytja umhverfisvæna orku. Á hálendinu hafa jafnvel minjar um gangnamannakofa liðinna alda hafa verið fjarlægðar til að undirstrika það viðhorf að í heimi umhverfisöfga sé maðurinn ekki velkominn.

Við styðjum raunverulega umhverfisvernd byggða á tækni, vísindum og heilbrigðri skynsemi. Stærsta framlag Íslands til umhverfismála á heimsvísu er hin umhverfisvæna álframleiðsla landsins. Hún verður enn umhverfisvænni með áframhaldandi framförum eins og magnaðri uppfinningu Jóns Hjaltalíns Magnússonar.

Ef eitt álver flyst frá Íslandi til Kína mun losun gróðurhúsalofttegunda tífaldast. Samt er nú rætt um að Íslandi verði sektað fyrir að hafa ekki dregið nógu mikið úr losun á meðan við byggðum upp umhverfisvænan iðnað á undanförnum 30 árum.

Hvert eiga þeir milljarðar að renna. Það virðist enginn vita. Líklega í nýja losunarhagkerfið sem lýst hefur verið sem einni stærstu svikamyllu síðari tíma.

Þetta er það sem gerist þegar kerfið ræður á kostnað heilbrigðrar skynsemi.

Í Bretlandi hefur losun gróðurhúsalofttegunda minnkað um hátt í helming frá 1990. Þ.e.a.s. sú losun sem skráð er á Bretland. En þegar betur er að gáð er raunin allt önnur. Stór hluti landbúnaðar og iðnaðarframleiðslu Bretlands hefur verið fluttur úr landi til ríkja þar sem losun vegna framleiðslunnar er jafnan meiri og losun vegna flutninga bætist við.

Ef þetta er tekið með í reikninginn hefur losunin nánast ekkert minnkað. Hún hefur bara verið flutt annað - ásamt framleiðslunni.

Umhverfismál eru eitt þeirra mála sem erfitt getur verið að ræða um út frá staðreyndum. Umræðan byggist öll á ímynd. Þegar sú er raunin bregðast stjórnvöld ekki rétt við og ná ekki árangri heldur valda jafnvel skaða.

 

Annað stórt mál sem orðið hefur að fórnarlambi ímyndarstjórnmálanna eru mál hælisleitenda og förufólks. Í þeim málaflokki væri hægt að hjálpa margfalt fleirum en nú er gert, og sérstaklega þeim sem þurfa mest á aðstoð að halda, ef þeir sem stjórna leyfðu sér að líta til staðreynda og byggja lausnirnar á þeim staðreyndum.

Raunar virðist þessi mikilvægi málaflokkur nú orðinn stjórnlaus á Íslandi.

Ég og aðrir þingmenn Miðflokksins höfum að undanförnu vakið máls á þessu og bent á hvernig gera mætti betur. Það munum við gera áfram á næstunni. Ég ætla því ekki að ræða þetta í löngu máli að sinni en veltið þessu fyrir ykkur:

Hvernig stendur á því að fjöldi hælisleitenda á Íslandi, eyju í Norður Atlantshafi, er allt í einu orðinn sá mesti af öllum Norðurlöndunum miðað við fólksfjölda?

Það er vegna þeirra skilaboða sem íslensk stjórnvöld hafa sent út.

Þau skilaboð nýta m.a. stórhættuleg glæpagengi til að selja fólki vonir um Ísland sem áfangastað og hafa þannig jafnvel af fólkinu aleiguna á fölskum forsendum.

Hin Norðurlöndin keppa nú hvert við annað um að senda frá sér skilaboð sem draga úr líkunum á því að löndin séu notuð í slíkum tilgangi.

Ef Ísland ætlar eitt Norðurlandanna að skera sig úr hvað þetta varðar verður ekki við neitt ráðið og það mun draga úr getu okkar til að hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálpinni að halda og taka vel á móti þeim sem við bjóðum hingað.

Fyrir dönsku þingkosningarnar í fyrra lögðu sósíaldemókratar fram heildstæða stefnu um hvernig mætti taka á þessum málum, veita nauðstöddum sem mesta hjálp en verja um leið samfélagið og reglur þess. Stefnan byggist á gömlum og góðum gildum jafnaðarmanna um mikilvægi samheldins samfélags og þeirri vitneskju að öflugt velferðarkerfi og opin landamæri fara ekki saman.

Við erum opin fyrir góðum hugmyndum og lausnum sama hvaðan þær koma, það má læra eitt og annað af jafnaðarmönnum, frjálshyggjumönnum, sósíalistum og íhaldsmönnum en varast um leið gallana.

En því miður eru stjórnmálin að verða sífellt einstrengingslegri. Það er afleiðing aukins rétttrúnaðar sem gengur gegn mörgum af grundvallargildum frjálslyndis og lýðræðis og birtist meðal annars í auknum hömlum á hvað megi ræða, hver megi ræða það og hvernig.

Þetta helst í hendur við vandamál sem mér hefur orðið tíðrætt um. Síaukna eftirgjöf valds frá kjörnum fulltrúum, fulltrúum almennings, til kerfisins.

Á meðan kerfið stjórnar láta margir stjórnmálamenn sér nægja að vera leikarar í leikhúsi ímyndarstjórnmálanna. Þar fer ekki fram rökræða um staðreyndir og lausnir. Áherslan verður á ímynd og tilraunir til að laga eigin ímynd að tíðarandanum en vega að ímynd og persónu annarra.

Miðflokkurinn er svar við þessari þróun. Flokkur sem vill virkja á ný mestu kosti lýðræðisins, rökræðu, leitina að lausnum og búa til raunverulegt val fyrir kjósendur þannig að þeir geti treyst því að við stöndum við það sem við lofum og viti að það hefur áhrif að styðja Miðflokkinn.

Stuðningur við Miðflokkinn þýðir að kerfið fær ekki að halda áfram á sinni braut óháð vilja kjósenda. Það verði breytingar þar sem lýðræðisleg niðurstaða nær fram að ganga.

Það munar um Miðflokkinn!

 

Til þess að geta náð þessum árangri þurfum við að vera samheldinn hópur og það höfum við sannarlega verið. Skipulag flokksins þarf líka að vera til þess fallið að veita öllum flokksmönnum aðild að stefnumótun og ákvarðanatöku.

Faraldurinn hefur sett strik í reikninginn en við höfum nýtt okkur nýjar leiðir til að vera í sambandi. Vonandi verður þó ekki löng bið eftir því að við getum aftur notið samvista hvert við annað.

Á fyrsta landsþingi Miðflokksins sem haldið var skömmu eftir stofnun flokksins og skömmu fyrir (sveitarstjórna)kosningar samþykktum við skipulag og lög til bráðabirgða og ræddum um að svo yrði metið, í ljósi reynslunnar, hvað betur mætti fara.

Laganefnd flokksins hefur síðan þá unnið að því að skoða lög og skipulag flokksins með það að markmiði að gera skipulag og starf hans sem best úr garði.

Fyrir nokkrum misserum voru flokksmönnum send drög nefndarinnar og svo aftur nú skömmu fyrir þingið. Síðan þá hefur nefndin leitast við aðlaga tillögur sínar mörgum góðum ábendingum sem bárust frá flokksmönnum.

Eitt af markmiðum laganna er að auka valddreifingu í flokknum og ná betri tengingu flokksmanna við hin ýmsu verkefni hans.

Þannig er lagt til að fjölgað verði í stjórn flokksins og hver stjórnarmaður beri ábyrgð á tilteknu sviði ásamt sérstakri nefnd eða stjórn hvers sviðs sem tryggi tengslin við flokksmenn um allt land.

Með þessu standa vonir til að flokkurinn verði rekinn eins og skilvirkt en lýðræðislegt fyrirtæki þar sem hlutverkaskipting er skýr og allir flokksmenn geti haft áhrif á öllum sviðum flokksstarfsins.

 

Það verða óvenjulegir tímar í pólitíkinni enn um sinn. En við þær aðstæður er sérstaklega mikilvægt að lausnamiðaður flokkur byggður á skynsemishyggju hafi áhrif. Flokkur sem er reiðubúinn að verja góð gildi og hefur trú á lýðræðinu og hinni endalausu leit að bestu lausnunum hverju sinni.

Við verðum ófeimin að tala fyrir mikilvægi fullveldis og þjóðmenningar, vinnusemi, samhentu samfélagi, jafnræði allra, samtryggingu og því markmiði að stjórnvöld tryggi öllum tækifæri fremur en að stýra lífi hvers og eins.

Við verðum líka óhrædd við að samþykkja og berjast fyrir góðum tillögum sama hvaðan þær koma.

Með Miðflokkinn við stjórn munu eldriborgarar loksins fá leiðréttingu á kjörum sínum.

Landbúnaður, iðnaður, ferðaþjónusta og aðrar atvinnugreinar munu fá notið sín og skapa fleiri störf og meiri verðmæti en nokkru sinni.

Sundabraut verður lögð og ráðist í tímabærar samgönguframkvæmdir um allt land.

Heilbrigðiskerfið verður lagað og tækifærin til að veita sjúklingum bestu mögulega heilbrigðisþjónustu á góðum kjörum nýtt.

Áætlun okkar um endurskipulagningu fjármálakerfisins er ekki gleymd. Henni verður hrint í framkvæmd og aðgerðirnar frá 2015 kláraðar.

Sjávarútvegur mun búa við starfsöryggi en afraksturinn skila sér í auknum mæli til byggðarlaganna.

Það verður auðvelt að stofna fyrirtæki og ráða fólk til vinnu enda verður hlutverk ríkisins að veita borgurunum þjónustu og hjálpa þeim að láta góða hluti gerast.

Áhersla verður lögð á nám sem nýtist nemendum og þörfum samfélagsins. Börn og ungt fólk mun fá að kynnast gömlum og góðum gildum samfélagsins og gagnrýninni hugsun en ekki innrætingu.

Ríkið mun fara vel með peninga skattgreiðenda og fjárfesta í verkefnum sem eru arðbær og mikilvæg fyrir samfélagið en spara annars staðar.

Lögreglan fær fjármagn og heimildir til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi í stað þess að vera send á rétttrúnaðarnámskeið.

Með betra regluverki um skipulag, fjármögnun og framkvæmdir munum við sjá ungt fólk eignast falleg og góð heimili á hagkvæmari hátt en áður.

Við munum verja fullveldi landsins og lög munu taka mið af íslenskum aðstæðum og þörfum samfélagsins.

Við munum lækka skatta og gjöld og innleiða jákvæða hvata sem verðlauna vinnusemi og framtak.

Við munum vernda náttúru landsins en nýta kosti hennar um leið.

Við munum taka vel á móti þeim sem koma til að taka þátt í uppbyggingu íslensks samfélags.

Við munum reka jafnréttisstefnu sem byggist á þeirri sannfæringu að allir séu jafnréttháir í stað þess að skipta fólki í hópa.

Við munum vernda og auka við menningu landsins.

Við munum koma með lausnirnar og við munum standa við loforðin.

Við munum sýna og sanna að það munar um Miðflokkinn.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Stefnuræða á Aukalandsþingi Miðflokksins þann 21. nóvember, 2020