Stimplum og flokkum

Mannkynið hefur frá örófi alda haft ríka þörf fyrir að skilgreina fólk og flokka það í hópa. Sem er svo hægt að stimpla sem æskilegt eða óæskilegt. Dæmi um þetta eru trúarbrögð, sem oft hafa verið nýtt til þess að flokka og stimpla fólk. Og þá oft sem við annars vegar og svo hinir hins vegar. Þau viðhorf og þær skoðanir sem einkenna þann hóp sem „við“ tilheyrum eru þá gjarnan þau einu réttu. Öll gagnrýni og/eða efi er sett undir sama hatt sem hið eina rétta. Allt skoðast sem árás á ríkjandi gildi og skoðanir hópsins. Í stað þess að fagna gagnrýninni og skoða hvort í henni geti falist sannleikskorn eða tækifæri er hún umsvifalaust kveðin niður. Enda óþægilegt að sitja í báti sem ruggar. Ef hópurinn sem „við“ tilheyrum er stór er sú staðreynd sumum nægjanleg fullvissa um réttmæti þeirra gilda sem hann trúir á. Jörðin var jú lengi flöt.

 

Pólitískur rétttrúnaður

Pólitískur rétttrúnaður er um margt áþekkur trúarbrögðunum að þessu leyti. Pólitískur rétttrúnaður er ekki það að hafa hugsjónir eða halda þeim fram af sannfæringu og festu. Heldur miklu fremur það að afgreiða þau viðhorf sem ekki falla að viðhorfum hópsins, stundum meirihluta fólks, sem vanþekkingu, bull, lýðskrum eða hvaða nöfnum sem hinn „rétthugsandi“ hópur kýs að flagga. Á stundum, til þess að komast hjá því að ræða rök þeirra sem leyfa sér að gagnrýna. Það er nefnilega svo þægilegt að fljóta með í stórum hópi. Í vari af fjöldanum. Þessi þægilega staða getur hins vegar orðið skynseminni yfirsterkari, þ.e. að einstaklingur kýs að horfa ekki gagnrýnum augum á umhverfi sitt. Viðkomandi velur að staðsetja sig þar sem minni líkur eru á því að hann þurfi að berjast fyrir sínum gildum. Sem stundum eru gagnrýni laust fengin að láni frá ríkjandi fjölmiðlum.
 

Skapandi minni

Skapandi minni og á stundum gullfiskaminni er svo eitthvað sem gott getur verið að grípa til þegar það sem áður heillaði okkur og varð til þess að við völdum eina leið fram yfir aðra. Slíkt minni á oftar en ekki uppruna sinn þegar gengið er til kosninga. Við fljótum áfram með okkar „stóra“ hópi til endurnýjunar gamalla og martugginna kosningaloforða. Enda höfðum við áður hafnað allri gagnrýni þeirra sem voru ekki eins rétttrúandi. Villutrúarmenn sem trúa því ekki lengur að Sjálfstæðisflokkurinn vilji í raun „Báknið burt“ eða „Einfalda skattkerfið“ hvað þá í raun að lækka skatta. Þar með talda nefskatta! Ekki heldur að Píratar vilji öðru fremur „meira beint lýðræði“ enda búnir að pakka því inn o3. Eða Framsóknarflokkurinn vilji „Nýjan Landspítala á nýjum stað“ hvað þá að Framsóknarflokkurinn „sé á móti veggjöldum“ eða verðtryggingunni og eða honum sé treystandi til varðstöðu með íslenskum landbúnaði. Hugsanlega þó nýsjálenskum!

Þá er það líklega villutrú að telja Vinstri græna færa um að standa gegn olíuleit eða telja að þeir raunverulega setji í forgang þá sem þeir áður töldu að þyldu enga bið með kjarabætur. Að ónefndri aðildarumsókn að ESB þvert á loforð sem VG stóð að með Samfylkingunni um leið og boðuð var skjaldborg um heimilin í því sama samstarfi. Sem raunar breyttist í umsátur um heimilin og kostaði u.þ.b. 10.000 fjölskyldur heimili sín. Það er þá líklega um að ræða pólitíska villutrú að trúa ekki formanni Viðreisnar þegar hún hamrar á því að Viðreisn stundi málefnalega rökræðu þegar staðreyndin er sú að þingmenn flokksins grípa endurtekið til uppnefninga á þeim sem eru ekki pólitískt rétttrúandi.

Tilgangur

Hver er svo tilgangurinn með flokkun og stimplun? Hann getur verið bæði dulinn og augljós. Hinn augljósi tilgangur er að ófrægja, útskúfa og/eða gera einhvern einstakling eða hóp ómarktækan í augum lýðsins og reyna þannig að koma í veg fyrir lýðhylli viðkomandi. Hinn duldi tilgangur er hinsvegar að upphefja eigin skoðanir og gildi án þess að þurfa að taka rökræðuna um þá gagnrýni sem sett er fram. Einfaldlega stimpla sig frá rökræðunni undir merkjum einhverra kennisetninga. Sem geta verið hverjar þær sem hópnum þóknast. Þær eru þá taldar góð söluvara og líklegar til að auka lýðhylli og þar með vinsældir. Kennisetningarnar taka því yfirleitt frekar mark á því sem hentar fjölmiðlum hverju sinni frekar en raunverulegri pólitískri stefnu. Flokkum ekki og stimplum ekki. Sýnum kjark og veljum rökræðu fram yfir ódýra merkimiðapólitík.

 

Í von um rökræðu byggða á staðreyndum en ekki stimplapólitík.

 

Höfundur:  Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins í norðaustur kjördæmi

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 26. september, 2019