Stjórnlaus vöxtur ríkisútgjalda

Þegar maður taldi fjárhagslegt ábyrgðarleysi hafa endanlega keyrt úr hófi fram hjá borgarstjóra og varadekkjum hans og vart við verri fréttum að búast hvað fjárhagslegar ráðstafanir opinberra aðila varðar – þá mætti fjármálaráðherra á Alþingi með fjárlagafrumvarp sem setti Íslandsmet í aukningu ríkisútgjalda á milli ára, bæti í milljörðum talið og hlutfallslega.

Einhverjum kann að þykja undarlegt að formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra, finni sig í þessari stöðu. Ráðherra sem hefur lagt sig í líma við að koma fram sem samviskusamur vörslumaður húsfélagsins í samhengi við hagsmuni sameiginlegs sjóðs okkar, ríkissjóðs. Vissulega hefur ráðherrann af og til farið útaf beinu brautinn við að verja skattgreiðandann, en aldrei eins og nú.

Hvað veldur? Er þetta verðmiðinn fyrir það ríkisstjórnarmynstur sem nú er við völd? Útgjaldaaukningin milli ára er til dæmis meiri á alla mælikvarða en hún var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á árunum 2007-2009 en munurinn er að þá var afgangur af ríkissjóði, en ekki 119 milljarða halli eins og nú stefnir í.

Ég sagði á Alþingi fyrr í vikunni að ef Bjarni Benediktsson bætti heimsmetið í lagstökki hlutfallslega jafn mikið og hann bætir í útgjöld ríkissjóðs á milli ára, þá væri nýja heimsmet fjármálaráðherra í lagstökki 10 metrar og 27 sentímetrar. Mike Powell og Carl Lewis væru í orðsins fyllstu merkingu skildir eftir í sandinum.

Auðvitað var þetta sett fram í kerskni af minni hálfu, en þó með alvarlegum undirtóni. Ef formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra með litlu hléi í hartnær áratug getur ekki haldið aftur af stjórnlausri útgjaldaaukningu, hver getur það þá?

Ég velti fyrir nokkru síðan upp spurningunni hvort staðan væri verri í raun án þátttöku Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Væru fleiri opinberir starfsmenn? Varla, enda hefur fjölgun þeirra verið með þeim hætti undanfarin misseri að nær útilokað hefði verið að fjölga þeim mikið meira þrátt fyrir að um hreina vinstri stjórn væri að ræða.

Væru ríkisútgjöld hærri? Varla mikið hærri, útgjaldavöxturinn er slíkur á tímabilinu að þróunin yrði varla verri nema sem sjónarmuni næmi.

Væri báknið stærra og umfangsmeira en það er þegar orðið? Varla, fyrirstaðan virðist nær engin vera og eftirlitsiðnaðurinn vex sem aldrei fyrr.

Í þessu samhengi er því rétt að rifja upp rökstuðninginn fyrir þeirri ríkisstjórn sem fagnaði fimm ára sambandsafmæli nú á dögunum. Haustið 2017 var því haldið fram að það þyrfti að tryggja pólitískan stöðugleika, eftir róstursamt tímabil árin á unda, þar sem ríkisstjórnir höfðu farið frá oftar en einhverjum þótti passandi.

En hver var nú þessi pólitíski órói þegar betur er að gáð? Á tímabilinu 1991-2023 gera landslög ráð fyrir að kosið sé að lágmarki níu sinnum til Alþingis, miðað við fjögurra ára kjörtímabil. Niðurstaðan er að á tímabilinu verður kosið tíu sinnum til Alþingis. Einar auka kosningar. Það var nú allur óróinn.

Menn hafa séð það svartara í nágrannalöndum okkar án þess að bindast slíkum tjónaböndum fyrir land og þjóð (og ríkissjóð) sem núverandi ríkisstjórn hefur gert. Að notast við „pólitísku óróarökin“ á öðru kjörtímabili er síðan afskaplega súr satíra gagnvart almenningi.

Þegar sami fjármálaráðherra og nú situr það ráðuneyti var þar árið 2013, í ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í mun flóknari stöðu enn nú er uppi var afstaðan skýr, fjárlög skyldu afgreidd hallalaus strax á fyrsta ári og það var gert. Nú er markmiðið að ná fjárlögum hallalausum árið 2027, um mitt næsta kjörtímabil! Hvað hefur komið fyrir? Er skjólið af forsætisráðherra vinstri grænna búið að draga úr mönnum allan þrótt, allan baráttuvilja. Eru menn orðnir of feitir til að hlaupa og of hræddir til að slást?

Hver sem skýringin er, þá er ekki sanngjarnt að framtíðarskattgreiðendur þurfi að bera kostnaðinn af því að heilu stjórnarflokkarnir nenni ekki lengur að vinna vinnuna sína, taka erfiðar ákvarðanir og stunda pólitík.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 7. desember, 2022.