Straumhvörf að verða í fráveitumálum í Svf. Árborg – seinni hluti

Ástand fráveitumála í Svf. Árborg hefur í langa tíð verið óviðunandi. Staðan hér er þó ekkert einsdæmi ef borið er saman við ástand fráveitumála almennt á landinu öllu. Þó ástand fráveitumála sé ekki og hafi ekki verið viðunandi í sveitarfélaginu fram til þessa, að þá er ekki þar með sagt að ekki hafi verið unnið að úrbótum í fráveitumálum sveitarfélagsins undanfarin ár og áratugi.

Þann 22. desember sl. birtist fyrri hluti greinarinnar í Dagskránni þar sem rakin var saga og staða fráveitumála á Selfossi í fortíð, nútíð og til framtíðar. Hér á eftir verður farið yfir stöðu fráveitumála í öðrum byggðarkjörnum sveitarfélagsins og í dreifbýlinu þar sem framtíðarlausnir í fráveitumálum verða kynntar.

Fráveitan á Eyrarbakka og Stokkseyri

Fráveitukerfin á Eyrarbakka og Stokkseyri eru að mestum hluta blandkerfi, þ.e. skólp og regnvatn saman í einni lögn. Skólpið rennur á báðum stöðum óhreinsað út í sjó. Árið 2020 var Efla verkfræðistofa fengin til að gera úttekt á ástandi fráveitukerfanna og vinna aðgerðaráætlun fyrir Mannvirkja- og umhverfissvið ásamt með tillögum til úrbóta og kostnaðaráætlun aðgerða.

Á Eyrarbakka eru lagnirnar allt að 70 ára gamlar og rennur skólpið um 7 útrásir út í sjó. Fráveitukerfið á Stokkseyri er aðeins yngra eða allt að 60 ára gamalt og rennur um 4 útrásir út í sjó. Mestur hluti þessara lagna er kominn á tíma hvað lífaldur og almennt ástand varðar. Aðeins í nýjustu götunum á báðum stöðum þar sem er tvöfalt kerfi er hægt að segja að ástandið sé viðunandi. Í úttekt Eflu kemur fram að það sé orðið mjög aðkallandi að bæta ástand kerfisins og setja upp hreinsun á báðum stöðum. Nefndir voru nokkrir möguleikar í því sambandi. Kostnaðurinn getur ef farið er í dýrustu lausnirnar hlaupið á rúmlega fimm milljörðum króna samanlagt fyrir báða staði.

 

Þess ber þó að geta að ástand fráveitukerfanna á Eyrarbakka og Stokkseyri er mismunandi og því ekki endilega einn og sami möguleikinn sem hentar á báðum stöðum. Einnig getur blanda af möguleikum fyrir mismunandi svæði reynst hagkvæmust og auðveldust í framkvæmd.