Stundum er lífið eins og skáldskapur.

                

                

 Stundum er lífið eins og skáldskapur.

Vinur hví dregur þú mig inn í þetta hræðilega hús, sagði Snæfríður Íslandssól við Arnas Arnæus Í bók Halldórs Laxnes Íslandsklukkunni,  þegar þau voru stödd í koti Jóns Hreggviðssonar á Rein við Akrafjall á ferðalagi um sveitir eftir fornum handritum. Þar fékk Arne í hendurnar skinnhandrit mjög merkilegt (úr Skáldu), þó vantaði í bókina eina síðu sem móðir Jóns hafði reynt að nota í bót á brækurnar hans, en síðan hélt ekki þræði.

Mér kom þetta í hug núna er við erum stödd á ótrúlegu ferðalagi heimsfaraldurs en allir á ferðalaginu eru í algerri óvissuferð. En af hverju setningin, „vinur hví dregur þú mig inn í þetta hræðilega hús“ kemur upp í hugann er furðulegt. Stundum leitar hugurinn til skáldskapar ef eitthvað fordæmalaust á sér stað. Af því að ég trúi á að allt hafi sinn tilgang, kom þessi hugsun upp:  Ef þessi faraldur er þetta hræðilega hús (í mínum huga), þá hlýtur að vera þar eitthvert handrit sem við þurfum að finna. Kannski eru einhverjir sem vita svarið og eru með handritið? En af því að ein síða var notuð í bót á brækurnar hans Jóns þarf líklega að geta í þá eyðu.

Ég hef þá trú að í minnkandi heimi þar sem samskipti á milli landa eru einföld og „hagtölur“ heimsins oftar en ekki efnahagslegar en sjaldnar horft til hags mannlegra þarfa á öðrum sviðum en efnahagslegar tölur geta sýnt, gætum við gert mun betur. Hamingjan er ekki mæld í peningum og ekki er allt gull sem glóir. Við erum öll hluti af náttúrunni og lifðum lengi vel á landsins gæðum. Margir kunna það enn, þó þeim fari fækkandi.

Tæknin gerir okkur kleift að þeir sem sitja heima í sóttkví geta samt sem áður verið í samskiptum við aðra en nándina vantar sem oftast er okkur nauðsynleg og nýjasta tækni ræður því miður ekki við.

Jörðin með öllum þeim búnaði sem lífið byggir á er farin að stynja. Það er búið að vera áhyggjuefni margra lengi. Kannski er tími einmitt núna til að endurskoða hvernig við getum umgengist móður jörð á þann hátt að þeim stunum linni.

Það verður fróðlegt að sjá þegar við komumst út úr „þessu hræðilega húsi“ hvernig mengun í lofti, á landi og í sjó mælist og hvað við getum lært af því. Nú er tækifæri til að velta þessu fyrir sér.

Hver er sjálfum sér næstur er gott og gilt máltak. Það að lifa á landsins gæðum hefur undirritaður oft minnt sig og aðra á í ræðum og ritum. Íslendingar er rík þjóð frá náttúrunnar hendi. Hér er mikil orka í vatnsföllum og jarðhita, fiskimiðin í kringum landið eru rík af fiski og landbúnaðurinn bær til ræktunnar grænmetis og dýra svo eitthvað sé nefnt. Mér finnst það alveg einboðið núna að við hugum að þessum málum og tryggjum og eflum sjálfbærni í matvælaframleiðslu og atvinnu eins og kostur er.

Þær aðgerðir sem gerðar hafa verið að hálfu stjórnvalda með samvinnu við landlækni, sóttvarnalækni og almannavarnir eru almennar. Strax er farið að koma í ljós að stærri skref verður að taka og margir hópar hafa kvartað yfir því að vera út undan, þeim þarf að mæta.

það var stjórnarandstöðunni vonbrigði þegar boðið var upp á samvinnu við að koma með tillögur að verkefnum á vegum ríkisins, skyldi öllum tillögum stjórnarandstöðunnar hafnað. Þrátt fyrir að við í minnihlutanum greiddum atkvæði með öllum tillögum ríkisstjórnarinnar.

Hugsum um á meðan þetta ástand varir, sem mætti líkja við að vera inn í skelfilegu húsi. Að okkur áskotnast handrit, þó vanti eina blaðsíðu. Efni handritsins gæti verið vísir að breyttri heimsmynd, önnur lífssýn, breyttir tímar, ný tækifæri.  

Sigurður Páll Jónsson

Þingmaður Miðflokksins.