Svo bara gerist ekki neitt

Það gerist margt undarlegt í aðdraganda kosninga. Hinn 1. apríl sl. tók borgarstjóri til dæmis upp á því að tilkynna tvöföldun á lóðaframboði í Reykjavík næstu fimm árin. Kannski á eftir að upplýsa um að í raun hafi verið um aprílgabb að ræða því svo kúnstug er tímasetningin eftir tugi ára á valdastóli í borginni með þekktum afleiðingum þrengingarstefnu í húsnæðismálum.

En varnagli var sleginn, að sjálfsögðu – nú hangir þetta á „húsnæðissáttmála höfuðborgarsvæðisins“. „Sáttmáli“ sem er þegar í gangi á grundvelli svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og þetta því augljós tímabundin leiktjöld í boði borgarstjóra í aðdraganda kosninga. Innistæðulaus loforð sveipuð í huggulegar glærusýningar – en skila engu til borgarbúa, frekar en fyrri daginn.

Dagur Bergþóruson Eggertsson hóf afskipti af skipulagsmálum borgarinnar árið 2004 þegar hann tók við sem formaður skipulags- og bygginganefndar borgarinnar. Vilji hans til að brjóta nýtt land til bygginga er því löngu ljós. Hann hefur haft 18 ár í málið – það er óskandi að borgarbúar gefi honum ekki fjögur ár til viðbótar á meðan fólksflóttinn bara eykst í önnur sveitarfélög.

Samgöngusáttmálinn er líka víti til varnaðar – á fyrstu árum hans hafa tvær meginframkvæmdir sáttmálans á stofnbrautakerfi höfuðborgarinnar horfið frá því að verða gatnamót með frjálsu flæði yfir í mun hættumeiri ljósastýrð gatnamót. Borgarlínuvitleysan kallar svo á sérstakan pistil. En það gengur vel með hjólastígana, það er ágætt ...

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því þannig í þingsal að það hefði orðið að gera umræddan samgöngusáttmála til að losa um framkvæmdastoppið á stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins – framkvæmdastopp sem var grundvallað á samkomulagi sem borgarstjóri sjálfur óskaði eftir í staðinn fyrir aukinn ríkisstuðning við Strætó bs. Sama Strætó bs. og nú boðar lækkað þjónustustig. Skýrara dæmi um greiðslu lausnargjalds man ég varla eftir. Lausnargjaldið var borgarlínan.

Svo verður ekki annað sagt en að það sé kómískt að sjá nýjan oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík hoppa eins hratt og hægt var á sáttmálavagninn. Merkja má á þessum fyrstu skrefum nýs oddvita Framsóknar í Reykjavík að hann sé ekkert annað en næsta hjól undir vagn oddvita Samfylkingarinnar – hjólið sem borgarstjóri mun þurfa til að endurreisa enn á ný meirihluta sinn í borginni og halda áfram á leið sinni til glötunar fyrir borgarbúa.

Nú er tækifæri til þess að horfast í augu við ruglið sem boðið hefur verið upp á í samgöngumálum, lóðamálum og veitingu grunnþjónustu. Greiða í gegnum kjaftavaðalinn og hlusta eftir raunverulegum lausnum – enda kominn tími til.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 5. apríl, 2022.