Það má aldrei gefast upp á fólki

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, tók í dag til máls í störfum þingsins:

"Ég rakst á umfjöllun í Stundinni sem bar heitið, með leyfi forseta, „Það má aldrei gefast upp á fólki.“ Þessi fyrirsögn vakti áhuga minn og við í Miðflokknum höfum ítrekað bent á að mikilvægt er að skapa störf til að gera fólki kleift að leggja sitt af mörkum. Þess vegna fór ég að lesa þessa umfjöllun. Við höfum viljað gefa fólki tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og þessi umfjöllun var einmitt um það. Með öðrum orðum þá er umfjöllunin m.a. um mikilvægt og gott samstarf á milli hins opinbera og einkageirans hjá VIRK. Leiðin er greið og hún liggur fyrir. Sagt er að stærsti lærdómurinn hafi verið að horfa á styrkleika fólks í stað veikleika. Jafnframt er okkur sagt að skortur á fjármagni sé helsta hindrunin. Ný nálgun í starfsendurhæfingu fyrir ungt fólk með geðsjúkdóma mun skila árangri, samfélagslegum sem og fjárhagslegum, svo ekki sé minnst á hvað þessi nýja nálgun mun skipta marga máli.

Ég vil því hvetja alla þá sem láta sig málið varða að sjá til þess að þessi nýja nálgun gagnist sem flestum. Okkur þingmenn greinir stundum á um leiðir að markmiðum en þarna sé ég leið sem gæti gagnast og markmiðið er skýrt og við eigum að stefna þangað."

Upptöku af ræðu Önnu Kolbrúnar úr þingsal má sjá hér.